Toyota þróar nýja túrbínuvél

Tæknifólk Toyota vinnur nú að því að þróa nýja ofursparneytna túrbínubensínvél. Toyota hefur til þessa lagt mesta áherslu á þróun tvinntækninnar (bensín/rafmagn) í þeim megintilgangi að fá fram sem mesta sparneytni á hefðbundið eldsneyti – bensín fyrst og fremst, og haft ótvíræða forystu á þeim vettvangi.

En tvinntæknin er dýr og ekki eru allir bílakaupendur tilbúnir til að borga fyrir hana það sem hún raunverulega kostar, sérstaklega vegna þess að árangur bílaframleiðenda í þróun og smíði sífellt sparneytnari véla hefur í raun verið ótrúlegur síðustu árin. Og nú vinnur Toyota að því að leggja lokahönd á nýja ofursparneytna túrbínu-bensínvél sem kosta mun miklu minna í framleiðslu en en tvinn-orkuverin fyrir bílana kosta. En túrbínuvélin er sögð verða ekki síður sparneytin, sérstaklega á vegum úti í langkeyrslu. Vél þessi verður fyrst boðin í Toyota Yaris, þá Auris en síðan í sportbílnum GT 86. Þar á eftir koma svo Avensis og síðan hver gerðin af annari. Þetta mun gerast strax á næsta ári og því þarnæsta.

Hér má sjá myndband af Toyota Yaris tilraunabíl þegar verið er að prófa hann með 170 ha. túrbínuvél af nýju gerðinni.