Toyota undirbýr átta nýjar bílgerðir

Í frétt frá Toyota Motor Corp í dag föstudag segir að í náinni framtíð verði af hálfu Toyota lögð meiri áhersla á hina sístækkandi bílamarkaði í Kína, Indlandi og Brasilíu þar sem Volkswagen, General Motors og Hyundai séu nú sterkastir bílaframleiðenda. Ætlunin sé að gera fyrirtækið minna háð hinum gamalgrónu mörkuðum í N. Ameríku, Evrópu og Japan. Stór þáttur í þessum fyrirætlunum eru nýjar, ódýrar gerðir bíla, sérstaklega ætlaðar þróunarmörkuðunum fyrstnefndu.

Toyota sem var orðinn stærsti bifreiðaframleiðandi heims, tapaði þeim titli á síðasta ári í kjölfar náttúruhamfaranna í Japan en hyggst endurheimta hann með stækkaðri markaðshlutdeild í Kína, Indlandi og Brasilíu. Árið 2000 seldi Toyota 18,6 prósent bílaframleiðslu sinnar í þessum ríkjum. Á síðasta ári var hlutfallið komið upp í 45 prósent heildarframleiðslunnar og nú er stefnan sett á 50 prósenta hlutfall 2015.

Alls verða hinar nýju gerðir Toyotabíla átta talsins en þær eru allar ætlaðar tll sölu á þeim ca. 100 bílamarkaðssvæðum í heiminum sem hraðast vaxa um þessar mundir. Ein þessara nýju Toyota-gerða er reyndar þegar komin fram í Indlandi og nefnist hún Etios.

Etios og hinir nýju bílarnir sjö verða fremur ódýrir bílar á evrópskan mælikvarða en verða ekki í flokki ódýrustu bíla á markaðssvæðum þróunarríkja. Útsöluverð þeirra er áætlað upp á eina milljón Yena eða 1,6 millj. ísl kr. Talsmaður Toyota sagði aðspurður við fréttamann Reuters fréttastofunnar að Toyota hygðist ekki auka markaðshlutdeild sína á þróunarmörkuðunum með því að demba inn á þá helmingi ódýrari bílum. Hann neitaði fregnum frá Japanska dagblaðinu Asahi um að Toyota ynni nú að hönnun 500 þúsund króna bíla fyrir Indlandsmarkað. „Við viljum efla okkur í þeim stærðarflokkum bíla þar sem við erum sterkir í samkeppninni,“ sagði talsmaðurinn. Bílakaupendur hefðu ýmsa aðra kosti samt, eins og notaða bíla og bíla frá öðrum framleiðendum. „Við förum ekki út í 500 þúsund króna flokkinn. Það er ekki okkar flokkur,“ sagði talsmaðurinn ennfremur.