Toyota Verso 5 stjörnu bíll

Euro NCAP birtir í dag niðurstöður sínar í árekstursprófunum á fimm nýjum bílagerðum. Þeir eru Citroen Nemo, Kia Venga, Nissan Cube, Seat Exeo og Toyota Verso. Einungis Toyota Verso hlaut full hús eða fimm stjörnur af þessum fimm bílum. Auk þeirra var einnig prófaður BMW X1 og birtar niðurstöður endurtekins prófs á Mercedes Benz E og Mercedes Benz GLK. Þessir síðastnefndu eru allir fimm stjörnu bílar.

http://www.fib.is/myndir/TopyotaVerso.jpg
http://www.fib.is/myndir/KiaVenga.jpg
http://www.fib.is/myndir/SeatExeo.jpg
http://www.fib.is/myndir/NissanCube.jpg
http://www.fib.is/myndir/CitroenNemo.jpg

 Euro NCAP hefur hert öryggiskröfurnar frá því sem þær voru á síðasta ári þannig að meira þarf nú til svo bílar nái fimm stjörnum. Hinar hertu kröfur ná fyrst og fremst til þriggja atriða: Vernd fullorðinna og vernd barna í bílnum og í þriðja lagi vernd fótgangandi sem verða fyrir bílnum. Til að bíll geti yfirleitt komið til greina sem fimm stjörnu bíll verður hann að ná 80 prósentum þeirra stiga sem eru í boði fyrir vernd fullorðinna í stað 75% áður. Fyrir vernd barnanna í bílnum þarf hann á sama hátt að ná 75 prósentum stiganna í stað 70% áður. Mesta breytingin er þó í þeim þætti sem lýtur að vernd fótgangandi. Þar þurfti bíll áður að ná 25 prósentum af stigakvótanum en nú þarf hann að ná 40%.

 Toyota Verso, eini bíllinn af þeim nýju sem nú nær fimm stjörnur. Verso náði ágætum árangri í öllum prófunarþáttunum en var áberandi bestur í vernd fótgangandi þar sem hann hlaut 69 stig af hundraði.

Flestir framleiðendur bíla á Evrópumarkaði bjóða nú sérstaka fjölskyldubíla  sem byggðir eru á sendiferðabílum. Prófunarmenn Euro NCAP hafa um nokkurt skeið rekið sig á það að margir þessara bíla eru mun verr búnir öryggistækjum og öryggisbúnaði en bílar sömu framleiðenda sem hannaðir voru frá grunni sem fólksbílar og eru þannig ekki breyttir sendibílar.

 Dæmi um bíl af þessu tagi, það er að segja sendibíl sem þróaður hefur verið yfir í rúmgóðan fjölskyldubíl, er Citroen Nemo Multispace sem er í raun innréttaður Citroen Nemo sendibíll. Í árekstursprófinu hlýtur Nemo Multispace einungis þrjár stjörnur og nær aðeins 29 prósentum stiga. Í hann vantar öryggisbúnað eins og ESC stöðugleikabúnaður (Electronic Stability Control) og aðvörunarflautu tengda leiðsögukerfinu sem varar ökumann við ef hann ekur yfir lögbundnum hámarkshraða þar sem hann er staddur hverju sinni. (Speed Limit Assistance). Hvortveggja búnaðurinn er ekki til staðar í bílnum og fæst heldur ekki sem aukabúnaður. Án ESC getur enginn bíll lengur fengið fimm stjörnur.

En meginástæða lágrar einkunnar bílsins fyrir vernd fullorðinna eru sú að engar loftpúðagardínur eru í bílnum og sætin veita lélega vörn gegn hálshnykk. Á myndunum hér til hliðar sést hvað loftpúðagardínur gera í hliðarárekstrum. Af þeim skýrist vel það gagn sem er af þessum öryggisbúnaði.

http://www.fib.is/myndir/Loftpudagardina.jpg
http://www.fib.is/myndir/Loftpudagardina2.jpg
Loftgardína ver höfuðið í
hliðarárekstri.

 Seat Exeo er nýr stallbaksfólksbíll en er í raun byggður á næst síðustu kynslóð Audi A4. Exeo hlýtur fjórar stjörnur. Það sem fyrst og fremst fellir þennan bíl er mælaborðið sem er of óeftirgefanlegt þannig að hætta er á meiðslum á hnjám og lærleggjum við árekstur. Loftpúði sem á að varna slíkum meiðslum gerir það ekki sem skyldi. Bíllinn stóð sig þó allvel í vernd fótgangandi og vernd barnanna í bílnum.

 Nissan Cube hlaut einnig fjórar stjörnur. Hann var engu að síður ágætur í flestu en það sem felldi fimmtu stjörnuna niður var að vernd barnanna í bílnum reyndist ekki sem skyldi í framanáárekstri.

Kia Venga hlaut einnig fjórar stjörnur en þó ekki áfallalaust, því að í framanáárekstrinum hálf skarst öryggisbelti ökumanns sundur vegna núnings við sætissleðann. Þetta er slæmur hönnunargalli sem hugsanlega gæti haft sömu áhrif í farþegasætinu fram í. En Kia brást mjög snarlega við þessari uppákomu í prófuninni og breytti hönnuninni og er þegar byrjað að innkalla þá bíla sem þegar eru seldir eða komnir í sýningarsali Kia í Evrópu.

Dr Michiel van Ratingen, framkvæmdastjóri Euro NCAP segir af þessu tilefni: „Allt sem dregið getur úr virkni öryggisbeltanna verður að lagfæra strax, fyrst og fremst vegna þess að svona ágallar eru alvarleg ógn við öryggi ökumanns og framsætisfarþega. Jafnframt myndi það rýra trúverðugleika Euro NCAP að láta svona galla óátalinn. Bílakaupendur verða að fá fullvissu fyrir því að þessi galli verði lagaður.  Vegna þess að gallinn var til staðar við prófunina standa fjórar stjörnurnar.“