Toyota Verso fær 1,6 l BMW dísilvél

Tæknisamvinnan milli BMW og Toyota í Evrópu sem hófst fyrir rúmlega tveimur árum, verður áþreifanleg eftir áramótin því að þá verður fjölnotabílinn Toyota Verso fáanlegur í Evrópu með 1, 6 lítra dísilvél frá BMW. Síðar er svo að vænta fleiri bíla þar sem samvinnu BMW og Toyota sér stað.

http://www.fib.is/myndir/VersoDisil2.jpg

Litlar dísilvélar eru algerlega ríkjandi í flokki fjölnotabíla af meðalstærð, sem Toyota Verso tilheyrir. Verso hefur aðallega fengist með bensínvélum hingað til en líka með eigin dísilvélum frá Toyota sem eru stærri eða 2,0 og 2,2 lítrar að rúmtaki. Með nýju nettu BMW dísilvélinni má reikna með að Toyota eigi eftir að stækka hlut sinn í þessum flokki.

Þessi umræddda BMW dísilvél er sem áður sagði 1,6 l að rúmtaki, 112 hestafla með 270 Nm vinnslu. Þetta er að grunni til sama vél og fæst í Mini Cooper D og BMW 114d. Hún er þó ekki alveg sú sama því búið er að aðlaga hana sérstaklega að Toyota Verso bílnum m.a. með því að setja í hana annað kasthjól og nýtt start/stopp kerfi frá Toyota. Þá er vélin sérstaklega aðlöguð til þess að gera henni og tölvukerfi hennar mögulegt að „tala við“ raf- og tölvukerfi sjálfs bílsins hnökralaust.

Toyota Verso-bílar koma á evrópska sölustaði Toyota með nýju dísilvélinni frá og með febrúar nk. Toyota Verso bílarnir eru byggðir í verksmiðju Toyota í Adapazari í Tyrklandi ásamt Corolla. Þá rekur Toyota sína eigin vélaverksmiðju í Póllandi þar sem m.a. eru smíðaðar dísilvélar.  

Samvinna Toyota og BMW er um margt fleira en bara Toyota Verso og vélina í hann. Tæknimenn beggja vinna nú að því að hanna nýjan undirvagn fyrir sportbíl. Einnig vinna þeir að þróun nýrrar tækni fyrir efnarafala og rafgeyma.