Toyota vetnisbíll í Tokyo

Stærsti bílaframleiðandi heims, Toyota, sýnir nú á bílasýningunni í Tokyo nýjan vetnisbíl sem sagður er að mestu tilbúinn til að fara í fjöldaframleiðslu og koma á almennan markað innan tveggja ára.  

Bíllinn hefur gerðarheitið FCV eða Fuel Cell Vehicle sem útleggst efnarafalsfarartæki. Bíllinn er rafbíll, svipað og Benz-vetnisstrætisvagninn sem var í Reykjavíkurumferðinni fyrir nokkrum árum. Í stað rafgeyma eru vetnisgeymar í bílnum og efnarafall sem breytir vetninu í raforku sem knýr rafmótor bílsins.

Vetnisáfyllingin tekur þrjár mínútur sem er svipað og það tekur að fylla á bensíngeymi venjulegs bíls. Í bílnum eru tveir vetnisgeymar og innihald þeirra dugar til a.m.k. 500 kílómetra aksturs.

Toyota hefur lagt mikið hugvit, fé og fyrirhöfn í það að þróa þá tækni og búnað sem í bílnum er. Yfir 500 vísindamenn og verkfræðingar hafa unnið að verkefninu undanfarin mörg ár og árangurinn er sá að búnaðurinn er orðinn miklu fyrirferðarminni en nokkru sinni áður. Hann er ekki meiri um sig en svo að hann kemst fyrir í venjulegum meðalstórum fólksbíl, eins og FCV bíllinn er.

Eitt hinna vandasömusta úrlausnarefna við byggingu þessa bíls var það að gera vetnisgeymana þannig úr garði að þeir yrðu þéttir og öruggir. Það er sagt hafa tekist vel enda eins gott því að vetnið í þeim fullhlöðnum er undir hvorki meira né minna en 700 kílóa þrýstingi á fersentimetra.

Sem fyrr segir er bíllinn í raun rafbíll og sker sig ekkert frá öðrum rafbílum í akstri og notkun nema að einu leyti. Drægi hans er verulega meira og miklu skemmri tíma tekur að fylla tóma tankana með orkuberanum vetni, en að endurhlaða rafgeyma. Það sem í fljótu bragði er hindrun í vegi bíla af þessu tagi er þá það að innviðina vantar. Vetnis-áfyllingarstöðvar eru nefnilega afar sjaldgæfar og á Íslandi er aðeins ein slík – á bensínstöð Skeljungs við Vesturlandsveg.

En kostirnir umfram rafbíla með rafgeymum eru augljóslega lengra drægi og hinn stutti áfyllingartími. Þessir kostir liggja til grundvallar því mati Toyota að efnarafalsbíllinn sé hinn mengunarlausi bíll framtíðarinnar fremur en rafgeymabíllinn.

Og mengunarlaus er hann: Vetnið er í sjálfu sér ekki orkugjafi heldur orkuberi sem skilinn er úr vatni t.d. með rafgreiningu. Það er þannig sjálf aðferðin við að aðgreina vetnið sem mestu skiptir ef vinnslan á að teljast umhverfisvæn eða ekki. Ef raforkan sem notuð er við rafgreininguna er til orðin í  olíu-, gas-, eða kolakyntu orkuveri er  öll umhverfismildin fyrir bí. Öðru máli gegnir hins vegar um rafstraum frá vind-, vatns-, eða gufuorkuveri. Það sem svo gerist í vetnisbílnum er það að þegar orkuberanum vetni er hleypt saman við súrefni í efnarafalnum verður til vatn og rafmagn.

Meðan nánast engar vetnisáfyllingarstöðvar fyrirfinnast, er augljóslega tilgangslítið fyrir Toyota og aðra bílaframleiðendur að setja vetnisbíla á almennan markað. En þess skal getið að Norðurlöndin og fleiri Evrópuríki hafa komið sér saman um að koma upp vetnisstöðvum og skapa þannig innviði fyrir vetnisbílana. Þessar stöðvar eiga að vera tilbúnar þegar þessir nýju vetnisbílar Toyota og fleiri framleiðenda koma á almennan markað árið 2015.