Toyota vill fleiri rafmagnsinnstungur

http://www.fib.is/myndir/Plugin_prius.jpg
Plug-In eða innstungu-Prius.

Toyota og evrópska orkufyrirtækið EDF Group hafa gert með sér samning sem miðar að því að auðvelda fjölgun rafbíla. Koma á upp rafhleðslustöðvum sem víðast þar sem hægt verður að hlaða upp geyma raf- og tvinnbíla á sem skemmstum tíma.

Raf- og bensín/dísilknúnum tvinnbílum fer ört fjölgandi og hefur Toyota ótvírætt leitt þá þróun með Prius og fleiri gerðum. Toyota hefur nú boðað endurbætta tvinnbíla með stærri geymum sem stækka verulega vinnuhring bílanna á rafstraumi. Hægt verður sömuleiðis að stinga bílunum í samband við rafmagnsinnstungu til að hlaða geymana. Þá hafa fleiri bílaframleiðendur boðað sambærilega bíla, nú síðast Volvo eins og greint er frá í frétt hér á undan.

Nýi Volvóinn verður ekki ósvipaður hugmyndarbílnum Volt frá General Motorssem áður hefur verið greint frá hér, nema að vinnuhringur Volvósins á rafmagninu er sagður verða 100 kílómetrar en hjá Volt bílnum er hann sagður 60 kílómetrar. Þetta þýðir að þeir sem fara á bílum af þessu tagi í og úr vinnu daglega geta auðveldlega komist af með að keyra eingöngu á rafmagninu. En til að það geti gengið upp hjá sem flestum er nauðsynlegt að koma sem víðast upp tenglum þar sem eigendur bílanna geta stungið þeim í samband til að fylla á rafgeymana.

Með samningi EDF Group og Toyota er einmitt ætlunin að gera þetta. Í fyrstunni munu samningsaðilar prófa bæði nýjar bílagerðir, m.a. nýja gerð af PriusPlug-In eða „innstungubíl“ og tengibúnað. Næsta haust er svo ætlunin að reisa allmargar hleðslustöðvar í Frakklandi og hugsanlega í fleiri Evrópulöndum.