Toyota Yaris ofurbíll

Toyota hefur fengist við tvíorkutækni í bílum lengi og náð að sama skapi lengra í þeim efnum en aðrir bílaframleiðendur. Nú stendur bílasýningin stóra í Frankfurt fyrir dyrum og þar ætlar Toyota að sýna frumgerð aflmikils og sportlegs Yaris Hybrid-R tvíorkubíls.

http://www.fib.is/myndir/Yaris-R-hybrid.jpg

Með þessum Yaris Hybrid-R vill Toyota sýna þá möguleika sem tvíorkutæknin getur opnað í því að byggja mjög sportlega og öfluga bíla. Sjálfur bíllinn er í grunninn tveggja dyra Toyota Yaris. Bensínvélin í honum er svonefnd Global Race Engine og knýr framhjól bílsins. Hún er 1,6 l og mjög öflug, enda hönnuð af bílasportsdeild Toyota í Þýskalandi. En auk hennar eru í bílnum tveir öflugir rafmótorar sem knýja afturhjólin.

Þegar hemlað er breytist hemlunarorkan í rafstraum sem hleðst upp í stórum þétti og bíður þar tilbúin eftir því að verða leyst úr læðingi út í rafmótorana þegar auka þarf hraðann hressilega. Þetta er samskonar tækni og er í Le Mans bílnum TS030 HYBRID frá Toyota.

16 ár eru liðin síðan Toyota kom fram með Prius tvinnbílinn. Síðan þá hafa 22 aðrar gerðir tvinnbíla komið úr smiðjum Toyota á markað í samtals 80 löndum. Í júlí sl. hafði Toyota selt yfir 5,5 milljón Toyota og Lexus tvinnbíla. Tíu prósend þessara bíla hafa selst í Evrópulöndum. Toyota áætlar að setja 16 nýjar eða verulega uppfærðar gerðir tvinnbíla á markað fyrir lok ársins 2015. Enginn annar bílaframleiðandi kemst með tærnar þar sem Toyota hefur hælana í þessum efnum.

Það er mat stjórnenda Toyota að rafbílar með efnarafal (Fuel Cell Hybrid Vehicle) sé heppilegasta leiðin til að draga úr eldsneytisnotkun og mengun frá samgöngum í framtíðinni. Því hyggjast þeir leggja aukna áherslu á rannsóknir og þróun slíkra bíla í náinni framtíð. Þessa mun sjá stað á sýningarsvæði Toyota á bílasýningunni í Frankfurt sem hefst í næsta mánuði.