Trabanthátíð í Zwickau í Saxlandi

http://www.fib.is/myndir/Trabant601.jpg
Trabant 601.

Fáni hins „látna“ þýska alþýðulýðveldis DDR blakti við hún í bænum Zwickau um nýliðna helgi þegar um 20 þúsund eigendur og áhugamenn um austurþýska Traband smábílinn hittust þar í 13. sinn. Zwickau er heimabær frægasta farartækis Austur Þýskalands Trabantsins. Í bænum  voru Trabantverksmiðjurnar alla tíð og þar hittast í júní árlega eigendur Trabantbíla á mikilli hátíð.

Trabantinn hefur í hugum A. Þjóðverja svipaðan sess og VW bjallan gamla í hugum V. Þjóðverja. Þegar Berlínarmúrinn og girðingin sem aðskildi Vestur- og Austur Þýskaland féll árið 1989 varð Trabantinn einskonar frelsistákn því þá flykktust A. Þjóðverjar út á vegina og óku sem leið lá til vesturs. Sá sem þessi orð ritar minnist þessa sumars og mikils fjölda Trabantbíla á vegum og hraðbrautum V. Þýskalands sem sannarlega höfðu varla eða ekki sést þar áður.

Trabantinn var sannarlega engin uppfinning ráðamanna Þýska alþýðulýðveldisins þeirra Walthers Ulbricht og arftaka hans, Erichs Hohnecker heldur ná rætur þessa smábíls með tveggja strokka tvígengisvélinni aftur til millistríðsáranna. Það var danski vélaverkfræðingurinn Skafte Rasmussen sem upphaflega hannaði bílinn og vélina í hann undir merkjum DKW sem síðar rann inn í Auto Union og enn síðar Audi.

Trabantinn reyndist ágæta vel, hann var einfaldur og sterkur og enn þann dag í dag eru um 58 þúsund Trabantar í ökuhæfu standi í Þýskalandi. Hér á Íslandi náði Trabant sterkri fótfestu. Innflytjandi hans legst af hér á landi var hinn merki bílamaður Ingvar heitinn Helgason og naut hann m.a. fulltingis Gunnars Bjarnasonar búvísindamanns og fyrrverandi hrossaræktarráðunautar. Gunnar var mikill aðdáandi Trabantsins og stofnaði samtök Trabanteigenda á Íslandi og hétu þau Skynsemin ræður.  

Ekki er vitað hvort íslenski Trabantmenn hafi sótt hátíðina um síðustu helgi í Zwickau en auk Þjóðverja voru þar Trabanteigendur frá Bretlandi, Frakklandi, Sviss, Ungverjalandi, Póllandi, Rúmeníu, Hollandi og Belgíu. Í tengslum við hátíðina í Zwickau var haldið sérstakt Trabant rall. Ekinn var 900 kílómetra hringur um Saxland, Pólland og Tékkland.
The image “http://www.fib.is/myndir/Trabantfestival.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.