Trabantinn í framleiðslu á ný?

http://www.fib.is/myndir/Trabant601.jpg
Trabant 601.

Þegar  Berlínarmúrinn féll og Þýska alþýðulýðveldið leið undir lok lagðist austurþýsk bílaframleiðsla af. Trúlega er Trabantinn frægastu þeirra bíla sem framleiddir voru í A. Þýskalandi og þegar múrinn féll varð Trabantinn einskonar tákn nýfengins frelsis Austur-Þjóðverja til ferðalaga og þessi litli og um margt ágæti smábíll skipar talsvert stóran sess í hugum Þjóðverja, ekki bara A. Þjóðverja heldur líka þeirra sem bjuggu vestan girðingarinnar sem skildi þjóðina að.

http://www.fib.is/myndir/Trabant_Herpa.jpgAllmörg ár eru síðan síðasti Trabantinn rann af færibandinu í Zwickau og leikfangaverksmiðja sem nefnist Herpa eignaðist sjálft vörumerkið – Trabant. Herpa framleiðir m.a. leikfangabíla sem eru eftirlíkingar raunverulegra bíla, m.a. Trabants og hefur Trabantinn lengi verið ein þeirra besta söluvara. Nú hafa eigendur Herpa því látið endurhanna Trabantinn og færa til nútímahorfs, svipað og t.d. Fiat hefur gert við gamla tímamótabílinn sinn, Fiat 500. http://www.fib.is/myndir/Trabant-herpa.jpg

Þessi „nýi“ Trabant er nú kominn inn á bílasýninguna miklu í Frankfurt sem opnuð verður blaðamönnum nk. þriðjudag, þann 11. september og síðan almenningi þann 13. sept. nk. Bíllinn er í stærðarhlutfallinu 1:10 og er við innganginn í sýningarskála 1, sal 1.

Í frétt á heimasíðu Herpa segir að með þessu vilji menn kanna hvort áhugi sé fyrir hendi hjá almenningi að þessi bíll komist í framleiðslu.