Tryggt að ríkisstofnanir kaupi umhverfisvænni bíla

Ríkisstjórnin hefur samþykkt á fundi að innleiða nýja stefnu sem tryggir að ríkisstofnanir kaupi umhverfisvænni bíla. Ríkið rekur nú um 800 bifreiðar af öllum stærðum og gerðum. Innleiðing vistvænni ökutækja er á meðal þess sem finna má í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Allir bílar ríkisins verða vistvænir, nema öryggis- eða notkunarkröfur krefjist annars, samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Til þess að innleiða nýja stefnu er lagt til nýtt verklag, sem Ríkiskaup og bílanefnd bera ábyrgð á. Bílanefndin heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið sem hefur yfirumsjón með bílaflota hins opinbera. Í nýju verklagi felst að fá sérfræðinga til þess að útfæra útboðslýsingar sem ná yfir þarfir meirihluta ríkisaðila með það að markmiði að skila vistvænum og hagkvæmum bifreiðum.

Gert er ráð fyrir að stofn­kostnaður bif­reiða­kaupa hækki en inn­kaupaverð vist­vænna öku­tækja er í mörgun tilfellum hærra en verð hefðbundinna ökutækja sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti,“ segir í fréttinni. Á móti komi hins vegar að rekstrar­kostnaður lækki og losun gróður­húsa­loft­tegunda vegna bif­reiða á vegum ríkisins muni lækka hratt á skömmum tíma.