Tvær nýjar vélar í Audi A5

http://www.fib.is/myndir/AudiA5.jpg
Audi A5.

Um miðjan júní sl. kom Audi fram með tvær nýjar vélargerðir í sportbílnum A5. Annarsvegar er um að ræða 2,7 l TDI dísilvél og hins vegar 3,2 l FSI bensínvél. Báðar er sex strokka og við báðar gerðirnar er þrepalaus tölvustýrð sjálfskipting.

Bæði dísil- og bensínvélin eru með beinni eldsneytisinnsprautun. Dísilvélin er 140 kW ( 190 hö.) Vinnsla hennar er 400 Newtonmetrar á 1400-3250 sn./mín. Viðbragð A5 bílsins með henni er einungis 7,6 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraðinn er 232 km/klst. Meðaleyðsla er 6,7 lítrar af dísilolíu á hundraðið.

Nýja bensínvélin er 3,2 l V6. Aflið er 195 kW (265 hö.) og mesta vinnsla er 330 Newtonmetrar. Vélin er með breytilega opnun ventlanna sem kallast Audi valvelift system (AVS). Í frétt frá Audi segir að þetta kerfi dragi verulega úr bensíneyðslu fyrir utan að auka aflið. Viðbragðið úr kyrrstöðu í hundraðið er 6,6 sek. og meðaleyðsla er 8,7 lítrar á hundraðið.