Tveir nýir DS4

Franski bílaframleiðandinn PSA (Peugeot-Citroen) vinnur af einbeitni að því að koma sér upp sérstöku gæðabílamerki (Premium) sem er DS. DS er sjálfstætt tegundarheiti án „ættarnafnsins“ Citroen. Með þessu fetar PSA svipaða slóð og Toyota með Lexus og Nissan með Infiniti og GM með Cadillac. Á bílasýningunni í Frankfurt sem hefst um miðjan september verða frumsýndar tvær nýjar uppfærslur af gerð DS4; annarsvegar venjulegur DS4 og einnig DS4 Crossback (sjá myndir).

http://fib.is/myndir/DS-1.jpg

DS4 Crossback er viðbót við þá DS bíla sem þegar eru fram komnir, en þeir eru DS3, DS4 og DS5. Í útliti á hann að minna á jeppling því að hann er þremur sm hærri á fjöðrum en DS4, með stærri felgur, svartar að lit og mjög litla skögun að aftanverðu. En til að geta talist fullveðja jepplingur vantar það mikilvægasta – fjórhjóladrifið.

En helsta nýjungin við þennan bíl er ekki jepplingslega útlitið heldur vélar og ný sjálfskipting beggja. Bæði bensín- og dísilvélarnar eru nýjar. Þær kallast PureTech og uppfylla nýja mengunarstaðalinn Euro-6 og eru sérlega lítið mengandi. Dæmi um það er t.d. ein þeirra, PureTech 130 S&S. Hún er þriggja strokka, 131 hestafl með 230 Nm togkraft. Hún er 9% öflugri í hestöflum en sú sem hún leysir af hómi og með 44% meira togafl. En það besta er að hún eyðir 21% minna eldsneyti en sú gamla og mengar að sama skapi minna.