Tveir vilja eignast Saab

Kínverska bílafyrirtækið Youngman hefur lagt fram formlegt og bindandi tilboð í þrotabú Saab í Trollhättan í Svíþjóð upp á 3,2 milljarða sænskra króna. Sænska dagblaðið Dagens Industri segir að indverska bílaframleiðslufyrirtækið Mahindra & Mahindra vilji líka eignast Saab og eigi í samningaviðræðum við bústjóra þrotabúsins.

Heimildamaður Dagens Industri segir við blaðið að 3,2 milljarða tilboðið í þrotabúið sé engin tilviljun. Það sé sú lágmarksupphæð sem stærstu kröfuhafar í búið geti sætt sig við. En auk þess segir blaðið að Youngman heiti því að fjárfesta fyrir 10,2 milljarða sænskra króna til viðbótar við kaupverðið til þess að koma bílaframleiðslu í gang á ný í verksmiðjunum í Trollhättan.