Tvímenningasamband sem klofnaði

Starfshópur um umferðarhraða í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar sem umhverfis og skipulagsráð borgarinnar skipaði 9. des. 2015 hefur nýlega skilað áliti. Í því er mælt með því að hraðamörk á meginleiðum (þéttbýlisþjóðvegum) vestan Kringlumýrarbrautar þar sem hraðamörk eru nú 50 eða 60 km á klst, verði lækkuð um 10 km/klst. í tveimur áföngum.

    Raunar eru það nokkrar ýkjur tala um starfshóp því að í þessum ,,hópi“ voru einungis tvær atkvæðisbærar manneskjur og einn áheyrnarfulltrúi. Álit ,,starfshópsins“ er því niðurstaða annars fullgilda meðlimsins í ,,hópnum“ sem titlaður er formaður. Sá heitir Sverrir Bollason. Hinn atkvæðisbæri maðurinn í ,,hópnum“ skilaði séráliti og mælti gegn því að lækka hraðann á umræddum meginleiðum. Hann heitir Ólafur Kr. Guðmundsson.

    En burtséð frá framansögðu, þá koma fram í báðum álitum starfshópsmeðlimanna tveggja góðar og athyglisverðar upplýsingar þótt meginályktanir tvímenninganna séu nokkuð ólíkar.  Ólafur Kr. Guðmundsson leggst í sínu áliti gegn því að lækka hámarkshraðann á Miklubraut og Sæbraut  úr 60 í 50 km/klst. Það muni hafa mjög neikvæð áhrif á umferðarflæði á þessum meginleiðum inn í og út úr borginni auk þess sem mengun aukist. Þá sé það varhugavert að innleiða nýtt hraðaþrep (40 km/klst.) inn í hið íslenska umferðarmynstur. Áður en rokið sé út í breytingar af þessu tagi beri fyrst að skoða fyrst samgöngumál borgarinnar heildstætt, endurbæta meginleiðirnar m.a. út frá slysahættu og slysasögu og taka síðan ákvarðanir um endurbætur og breytingar í víðtæku samráði við íbúa og notendur samgöngumannvirkjanna.

Hér er að finna sjálfa skýrsluna ásamt séráliti Ólafs og minnisblaði frá verkfræðistofunni Verkís.