Tvinnbílaeigendur stefna Ford
Óánægja bílakaupenda með ofurbjartsýnar eyðslutölur bílaframleiðenda vex stöðugt bæði austan og vestan hafs. Nú síðast hafa bandarískir kaupendur tvinnbíla frá Ford sem telja sig svikna, stefnt Ford fyrir að gefa upp of lágar bensíneyðslutölur. Bíleigendurnir krefjast endurgreiðslu á mismuninum á uppgefinni eyðslu bílanna og raunverulegri eyðslu þeirra í daglegri notkun.
Í Fíladelfíu hefur hópur eigenda Ford Fusion Hybrid og C-Max I Hybrid bíla sameinast um að stefna Ford fyrir héraðsdóm Fíladelfíu fyrir að gefa upp of lágar og þar með rangar eyðslutölur. Ford gefur upp að bílarnir eyði í kring um fimm lítrum á hverja hundrað kílómetra (þeir komist 47 mílur á hverju galloni af bensíni). Eigendur bílanna segja að rauneyðsla bílanna sé mun meiri en það.
Bíleigendurnir segja að Ford hafi með þessu markaðssett bílana á fölskum forsendum með fullyrðingum um að Ford bílarnir séu sparneytnari en sambærilegir bílar keppinautanna. Ekki er örgrannt um að bíleigendurnir hafi nokkuð til síns máls því að bandarískir bílafjölmiðlar hafa birt heilu greinaflokkana um ýkjusögur bílaframleiðenda um magnaða sparneytni bíla og hvernig þeir bílar sem sendir eru í eyðslupróf, eru sérstaklega stilltir og úr garði gerðir þannig að þeir eyði sem allra minnstu eldsneyti rétt á meðan á eyðsluprófinu stendur. Þá hafa þeir greint frá því að framleiðendurnir verði stöðugt flinkari við þetta og því hafi bilið mmilli uppgefinnar eyðslu og raunverulegrar stöðugt verið að breikka undanfarin fá ár. Samkvæmt tölunum eru sumir nýjustu bílarnir orðnir svo ofur sparneytnir að það geti einfaldlega ekki staðist og reyndar komi það í ljós strax og fólk hefur keypt bílana og byrjað að nota þá. Þá komi allt önnur og meiri eyðsla í ljós.
Ford Fusion er mest selda bílgerðin í Bandaríkjunum um þessar mundir. Þeir sem næstir koma eru svo Honda Accord og Toyota Camry. Tvinngerð Ford Fusion er markaðssettur og auglýstur sem ofursparneytinn bíll með marga eiginleika lúxusbíls eins og t.d. Mercedes 350C, en miklu ódýrari og auk þess að vera helmingi sparneytnari. Það staðfesti eyðslumælingar samkvæmt opinberum mæliaðferðum.
Consumer Reports neytendatímaritið hefur eyðslumælt bæði Ford Fusion Hybrid og C-Max I Hybrid með hinni opinberu mæliaðferð og er niðurstaðan sú að eyðsla bílanna er 17-21 prósent meiri en fullyrt er af hálfu Ford.