„Twizy“ frá Honda

Það þótti nokkuð djarft af Renault fyrir tæpum tveimur árum að ætla að fara út í það að fjöldaframleiða rafknúna tveggja manna borgarfarartækið Renault Twizy. En Renault hefur ekki gengið illa með Twizy því að selst hafa hátt í átta þúsund eintök af honum á árinu. Og nú virðist sem Honda ætli að feta svipaða slóð. Honda farartækið, sem enn er frumgerð, er fjarri því að vera jafn hrátt í útliti og Twizy. Það líkist meir bíl og á því eru hurðir og rúður þannig að „stjórnklefinn“ er lokaður.

http://www.fib.is/myndir/Honda-rafskutla.jpg
Honda Micro Commuter.
http://www.fib.is/myndir/Renault-Twizy-2012.jpg
Renault Twizy - með hurðum.

Á staðalgerð Twizy voru og eru ekki hurðir. Hurðir á ökutækið fást sem aukabúnaður, en á þeim eru engar rúður. Rúður  úr gegnsæju plasti fást að vísu frá öðrum framleiðendum sem eigendur geta sjálfir fest á hurðirnar við hjálp af borvél og skrúfjárni.

Honda farartækið, sem enn er frumgerð, nefnist Honda Micro Commuter. Þetta er eiginlega japönsk útgáfa af Twizy. Ytri málin eru nánast þau sömu. Að lengd, breidd og hæð eru málin 250 x 125 x 145 sm ökumannssætið er fyrir miðjum bílnum og farþegasætið beint fyrir aftan það. Afl rafmótorsins er 15 kW, drægið á rafhleðslunni er sagt 100 km, hámarkshraðinn er 80 km/klst. og hleðslutíminn þrjár klst.

Honda segir í frétt um þennan væntanlega keppinaut Twizy að tilraunaakstur hefjist senn og fari fram í Japan mestallt næsta ár. Ætlunin sé að þróa farartækið innan þess evrópska  farartækjastaðals sem nefnist L7 sem eru fjórhjól. Twizy er einmitt L7 farartæki. Það bendir því ýmislegt til þess að Twizy verði ekki lengi enn eina farartækið sinnar tegundar á markaðinum.