Týnd lyklakippa endurheimtist

http://www.fib.is/myndir/Lyklar_7609.jpg
Gísli Vigfússon tekur við lyklunum sínum úr hendi Runólfs Ólafssonar framkvæmdastjóra FÍB. Til vinstri á myndinni er Hugi Hreiðarsson markaðsstjóri Atlantsolíu.

Það er stórmál þegar lyklakippan týnist. Á henni eru m.a. lyklar að vinnustaðnum, heimilinu og bílnum og maður kemst ekki inn í húsið sitt, ekki inn á vinnustaðinn né þær læstu hirslur sem þar eru og bíllinn verður ónothæfur að meira eða minna leyti þótt hægt sé að nálgast varalyklana. Aðallykillinn  að bílnnum er venjulega sá sem er notaður og þegar hann týnist þarf að útvega nýjan, forrita hann og aðlaga að bílnum og það kostar tugi þúsunda króna.

Öllum þessum óþægindum og kostnaði stóð Gísli Vigfússon félagsmaður í FÍB og handhafi dælulykils frammi fyrir í fyrrradag, þriðjudaginn 31. janúar. Gísli er læknir á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi og var á leið á kvöldvakt kl 15.00 á þriðjudaginn var. Um hádegið ákvað hann að fara klukkutíma þjálfunarhring með veiðihundinn sinn. En þegar hann kemur til baka uppgötvar hann að lyklakippan er horfin og hann kemst ekki inn í húsið sitt né bílinn og getur ekkert hringt því að hann hafði ekki tekið farsímann með í göngutúrinn með hundinum. Hann ákveður því að endurtaka hringinn í hvelli til að reyna að finna lyklakippuna en hún finnst hvergi. Nú nálgast óðum sá tími að vaktin hefjist og hann neyðist því til að koma hundinum fyrir hjá nágrönnum og hlaupa í hvelli talsverða vegalengt frá heimili sínu niður í Mjódd til að ná þar í leigubíl og rétt ná í tæka tíð á vaktina á spítalanum.

Svo vel vildi þó til að heiðarlegur vegfarandi fann lyklakippuna í millitíðinni og skilaði henni strax til lögreglu. Lögreglan sá strax að það var dælulykill á kippunni og hringdi því um leið í Atlantsolíu og FÍB. Atlantsolía og FÍB fundu snarlega út hver það er sem er skráður fyrir dælulyklinum og var strax hringt til Gísla sem kom í gær við hjá FÍB í Borgartúninu til að sækja lyklakippuna til Runólfs Ólafssonsr framkvæmdastjóra. Það má því segja að samvinna að samvinna Gísla, Atlantsolíu og FÍB hafi í þessu tilfelli gert gæfumuninn sem leiddi til þess að lyklakippan skilaði sér svona fljótt og vel til rétts eiganda og sparaði honum ómæld óþægindi og fjárútlát.