Umboð fyrir MINI tekur til starfa hjá BL

Umboð fyrir bílaframleiðandann MINI verður formlega kynnt sem nýtt merki hjá BL nk. laugardag, 14. október, þegar glæsilegur aldrifinn tengitvinnbíll, MINI Cooper S E Countryman ALL4, verður frumsýndur á bílasýningu BL við Sævarhöfða milli kl. 12 og 16.

 MINI Cooper S E Countryman ALL4 er fyrsti aldrifni bíll MINI og jafnframt fyrsti tengitvinnbíllinn (Plug-in-hybrid). Nýr Countryman er heldur stærri en eldri gerðir bílsins en svo sannarlega býr hann yfir sömu heimsþekktu aksturseiginleikunum sem MINI hefur alla tíð verið hvað þekktastur fyrir.

Það er grundvallaratriði sem BMW Group hefur gætt að í þróun bílsins frá því að fyrirtækið eignaðist framleiðandann árið 1994. Akstur MINI Cooper S E Countryman ALL4 býður sem fyrr hressandi og skemmtilega akstursupplifun og fallega hönnun sem er í senn einföld og glæsileg.

MINI er dótturfyrirtæki BMW Group sem hefur staðið fyrir umtalsverðri þróun á þessu sögufræga og vinsæla merki frá 1994 þegar fyrirtækið var keypt frá Bretlandi. Margir Íslendingar þekkja MINI sem var lengi vinsæll hér á landi undir heitinu Austin Mini.

 Bíllinn hefur alla tíð skorið sig úr fjöldanum enda fáir jafn auðþekkjanlegir í útliti. Það sem upphaflega byrjaði sem snilldarlausn á árum olíukreppunnar sló umsvifalaust í gegn um allan heim enda blés yfirbragð bílsins fólki bjartsýni í brjóst.

MINI hefur þróast með aðdáendum sínum og breyst í samræmi breyttar þarfir, aðrar áherslur á stærð, efnisval, áferð og ýmsan annan smekk án þess þó að tapa upphaflegum eðliseiginleikum sínum.  MINI er alltaf MINI þótt aðdáendur geti valið úr meira en 10 milljónum mögulegra samsetninga.