Umferð á Norðurlandi er um 40 prósentum minni en fyrir ári síðan

Umferðin í nóvember á Hringveginu reyndist 21,5 prósentum minni en í nóvember í fyrra. Þetta sami hlutfallslegi samdráttur og í október. Í tölum frá Vegagerðinni kemur fram að umferð á Norðurlandi er um 40 prósentum minni en fyrir ári síðan. Það stefnir í gríðarlegan samdrátt í ár og gæti hann orðið 14-15 prósent, sem eru tölur sem ekki hafa áður sést og munar miklu.

Umferðin yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi í nóvember var rúmlega 10% minni en í október sl. en 21,5% minni en í sama mánuði á síðasta ári.  Þetta er sama hlutfall samdráttar og mældist í október.  Eins og nærri má geta er þetta met samdráttur milli nóvember mánaða og rúmlega þremur og hálfu sinnum meiri en fyrra met, sem varð á milli áranna 2011 og 2012. Leita þarf aftur til ársins 2015 til að finna minni umferð í nóvember mánuði, yfir umrædda mælistaði.

Mikill samdráttur varð í öllum landssvæðum en mestur um Norðurland eða tæplega 40% en, utan höfuðborgarsvæðis, varð hann minnstur um mælistaði á Vesturlandi.  Þetta er gríðar mikill samdráttur um Hringveginn úti á landi og það lætur nærri að annar hver bíll frá síðasta ári hafi horfið úr umferðinni um Norðurland en þriðji hver um önnur landssvæði fyrir utan höfuðborgarsvæðið en þar varð rétt rúmlega 13% samdráttur.

Frá áramótum
Nú hefur umferðin dregist saman um 14% frá áramótum, sé hún borin saman við sama tímabil á síðasta árin.  Þetta er tæplega þrisvar sinnum meiri samdráttur miðað við árstíma en áður hefur mælst á umræddum mælistöðum.

Mest hefur umferð dregist saman um Austurland eða um rúmlega 29% en fyrir utan höfuðborgarsvæðíð hefur minnstur samdráttur mælst um Vesturland 

Til að varpa öðru ljósi þessar umferðar- og samdráttartölur má nefna að umferð og akstur á Íslandi hefur í gegnum tíðina aukist í takt við almenna fólksfjölgun enda má segja að það liggi í hlutarins eðli.  

Núna stefnir í að umferðin á Hringveginum verði svipuð því sem hún var árið 2016 en á sama tíma hefur hefur Íslendingum fjölgað um 9,5% og Íslendingum eldri en 17 ára (eða fólki mögulega með ökuréttindin) fjölgað um 11,5%.

Þannig að þegar umferð eykst ekki í samræmi við fólksfjölgun er það talið merki um að umsvif í þjóðfélaginu hafi dregist saman.  Umferðin er því nokkurs konar rauntímamælikvarði á það hversu mikil umsvifin í þjóðfélaginu eru hverju sinni.