Umferð á Reykjanesbraut norðan Sprengisands færð yfir á bráðabirgðaveg

Í kvöld og nótt verður umferð á Reykjanesbraut norðan Sprengisands færð yfir á bráðabirgðaveg vestan við Reykjanesbrautina og hraði tekin niður í gengum framkvæmdasvæðið, en búast má við einhverjum töfum meðan á þessu stendur.

Búið er að leggja bráðabirgðavegi svo hægt er að halda öllum akreinum opnum meðan á framkvæmdunum stendur, en þær eru liður í endurnýjun allra lagna veitukerfanna, þ.e. fráveitulagna, kaldavatnslagna, hitaveitulagna, raflagna og fjarskiptalagna Gagnaveitu Reykjavíkur og Mílu, frá Reykjanesbraut við Sprengisand í gegnum Elliðaárdalinn og upp með Rafstöðvarvegi.

Vinnan mun hefjast um kl. 19 í kvöld og standa yfir til kl. u.þ.b. 3 í nótt, aðfaranótt fimmtudagsins 25. júlí. Byrjað verður að færa akreinar sem fara til suðurs á bráðabirgðaveg og akreinar til norðurs færðar í framhaldinu. 

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin, sem eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.