Umferðaljósin enn án skynjara

Ekki hefur enn náðst að koma skynjurum á mótum Kleppsmýrarvegar og Sæbrautar í gagnið. Samgöngustjóri vonast til þess að úr rætist á næstu dögum. Fram kemur á ruv.is í umfjöllun um málið að starfsfólk Reykjavíkurborgar náði ekki að koma fyrir skynjurunum vegna umferðarljósa á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar um helgina eins og til stóð. Yfirborð vegarins var of blautt til að hægt væri að saga í veginn koma skynjara fyrir og loka aftur.Þetta var síðasti skynjarinn sem átti eftir að koma í virkni á Sæbraut.

Miklar umferðartafir hafa verið á Sæbraut síðustu vikur og mánuði sem orsökuðust af því að skynjarar við umferðarljós voru óvirkir og græn ljós loguðu því of stutt á meginumferðarstrauminn. Að jafnaði er um 40 þúsund bílum ekið um þennan vegakafla á sólarhring. Í síðustu viku náðist að koma öllum skynjurum á umferðarljósum í Sæbraut í virkni nema á gatnamótunum við Kleppsmýrarveg. Þess vegna ganga umferðarljósin þar enn eftir tímastillingu, óháð umferð

Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, segir í skriflegu svari til ruv.is að stærstan hluta dagsins kemur það ekki að sök.

„Það stendur til að gera aðra atlögu að því að koma skynjurum ofan í malbikið á næstunni. Ég þori samt ekki að lofa hvenær það verður þar sem það þarf að gerast utan mestu umferðarinnar. Það verður vonandi í vikunni eða um helgina,“ segir Guðbjörg.

Málið var tekið til umfjöllunar á fib.is í síðustu viku og kom fram að þessar tafir af manna völdum sem hafa staðið yfir í margar vikur kosta borgarana og fyrirtæki dýrmætan tíma og peninga og draga úr samverustundum fjölskyldna. Umferðarösin dregur úr trúverðugleika og trausti til almenningssamgangna þar sem strætó var í sömu þvögunni. Ökutæki í lausagangi eða hægagangi losar mikið magn af loftmengandi efnum. Allar þessar tafir hafa aukið við loftmengun og aukið kostnað heimila og fyrirtækja vegna orkukaupa. Umferðartafir geta verið alvarleg öryggisógn við almenning m.a. vegna hindrana á flæði og forgang sjúkra- og slökkvibíla.