Umferðarhegðun eftir þjóðernum

Evrópskur ferðamálavefur hefur nú í sumar spurt lesendur hverja þeir telja vera verstu ökumenn Evrópu. 30 þúsund manns svöruðu og 23,7 prósent þeirra töldu ítalska ökumenn þá verstu. Athyglisvert er að meðal þeirra sem hafa þessa trú á ökumennsku Ítala eru Ítalir sjálfir, en 28 prósent ítalskra svarenda sögðu Ítali þá verstu.

Þá virðist sjálfsálit Grikkja ekki upp á marga fiska um þessar mundir því að hvorki meira né minna en 36% þeirra töldu sjálfa sig verstu ökumenn álfunnar.

Könnunin nær til 15 Evrópulanda þannig að inn í hana vantar mörg lönd og ríki. Taka verður fram að þar sem þetta er óvísindaleg netkönnun verður að gera ráð fyrir því að niðurstöður eru fremur til vitnis um einhverskonar viðhorf Evrópumanna til granna sinna og sjálfra sín en að þær séu beinharðar staðreyndir.

Áberandi er hversu margir telja  Ítali (23,7%), Grikki (15,6%) og Pólverja (14%) vonda ökumenn. Þjóðverjar sem hafna í fjórða sætinu með næstum helmingi færri atkvæði en Pólverjarnir í þriðja sætinu með 7.9%.

Finnar njóta greinilega mikils álits sem snilldar ökumenn. Einungis 1,5% svarenda töldu þá vonda bílstjóra.

http://www.fib.is/myndir/Verstu-bilstj.jpg