Umferðarljósið til mbl.is

Frá V: Guðrún Hálfdánardóttir fréttastjóri mbl.is,Una Sighvatsdóttir blaðamaður, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Sigurður Helgason framkv.stj. umferðarráðs.

Umferðarljósið; viðurkenning umferðarráðs til þeirra sem unnið hafa árangursríkt og eftirtektarvert starf á sviði umferðaröryggismála var veitt í 10. sinn við upphaf umferðarþings í morgun. Að þessu sinni hlaut mbl.is viðurkenninguna fyrir greinaflokkinn Váin á vegunum sem birtist á fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, fyrr á þessu ári.

Sigurður Helgason framkvæmdastjóri umferðarráðs sagði við þetta tækifæri að fjölmiðlar væru meðal mikilvægustu stuðningsaðila umferðaröryggis og hvatning þeirra og gagnrýni skipti miklu máli.

Um langt árabil hefði farið fram metnaðarfull og fagleg umfjöllun um umferðarmál og umferðaröryggi á vettvangi Morgunblaðsins. Vönduð vinnubrögð hefðu ætíð verið þar áberandi og blaðamenn farið rétt með og túlkað vel orð viðmælenda og gætt þess að sem flest sjónarmið kæmu fram. Greinaflokkurinn Váin á vegunum sem birtist á fréttavefnum mbl.is fyrr á þessu ári hefði þar ekki verið nein undantekning. Þar var í forystu Una Sighvatsdóttir ásamt fleiri góðum blaðamönnum sem lögðu gjörva hönd á góða umfjöllun. „Með þessari viðurkenningu vill Umferðarráð þakka fyrir mikilvægt framlag og veit að framhald verður á þeirri góðu vinnu sem innt hefur verið af höndum um langt árabil,“ sagði Sigurður Helgason.

Það var síðan sr. Karl V. Matthíasson formaður umferðarráðs sem afhenti umferðarljósið þeim Unu Sighvatsdóttur blaðamanni og Guðrúnu Hálfdánardóttur fréttastjóra mbl.is.