Umferðarmet á Hringvegi í nóvember

Umferðin á Hringvegi í nóvember jókst um ríflega 11 prósent frá sama mánuði fyrir ári. Umferðin hefur aldrei verið meiri í nóvember. Líklegt er að gott veðurfar hafi leitt til aukinnar umferðar. Útlit er fyrir að umferðin í ár verði um fjórum prósentum meiri en hún var í fyrra samkvæmt tölum frá Vegagerðinni.

Umferðin í nýliðnum mánuði, yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, reyndist rúmlega 11% meiri en í sama mánuði á síðasta ári. Má ætla að gott veðurfar í nóvember hafi haft þarna veruleg áhrif. Með þessari aukningu var fyrra met, frá árinu 2019, slegið um rúmlega 8%.

Mest jókst umferðin um Norðurland eða um tæplega 21% en minnst um höfuðborgarsvæðið eða um rétt rúmlega 8%. Aukning var yfir alla teljara og mest jókst umferðin um teljara á Mýrdalssandi eða tæplega 27% en minnst um teljara við Úlfarsfell eða tæp 7%.

Nú hefur umferðin aukist um rúmlega 4% það sem af er ári miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Mest hefur umferð aukist um Austurland eða um tæplega 14% og minnst um höfuðborgarsvæðið eða um 1,5%. Umferð hefur aukist í öllum vikudögum. Mest hefur umferð, það sem af er ári, aukist á fimmtudögum eða um tæplega 6%, en minnst eykst umferðin á mánudögum eða rétt rúmlega 2%.

Fram kemur í tölum Vegagerðarinnar að mest er ekið á föstudögum en minnst á laugardögum.