Umferðaróhappið gert léttbærara

óhAPPið er nýtt snjallsímaforrit sem þjónustufyrirtækið Árekstur hefur tekið í notkun. Árekstur er óháð fyrirtæki sem sérhæfir sig í vettvangsrannsóknum umferðaróhappa á höfuðborgarsvæðinu. Þegar starfsfólk þess er kallað til þar sem árekstur hefur orðið í umferðinni, rannsakar það slysavettvanginn, tekur myndir, gerir uppdrætti og gengur frá skýrslum og senda til viðkomandi tryggingafélaga óhappaökutækjanna.

Þeir sem hafa óhAPPið í snjallsíma sínum geta með því sett sig beint í samband við Árekstur hafi umferðaróhapp orðið. Verði umferðaróhappið hinsvegar utan opnunartíma Áreksturs eða utan höfuðborgarsvæðisins er hægt að senda árekstri upplýsingar og myndir af vettvangi sem duga til að ganga frá tjónaskýrslu beint úr appinu.

Þetta er gert þannig smellt er á takkann ‘Gera tjónaskýrslu’ og fá þá notendurnir nákvæmar leiðbeiningar skref fyrir skref um það sem gera skal. Appið sér síðan um að senda upplýsingarnar og ljósmyndirnar til Áreksturs sem vinnur úr þeim og sendir fullunna tjónaskýrslu á viðkomandi tryggingafélag.

Appið góða er hægt að nálgast ókeypis. Fyrir Android síma er hægt að nálgast það á Google Play Store og fyrir iPhone í App Store. Þjónusta Áreksturs er frí fyrir viðskiptavini Sjóvá, Tryggingamiðstöðvarinnar, Vátryggingafélags Íslands og Varðar.