Umferðarstýring og þrif á götum skipta miklu máli

Aukið svifryk hefur mælst á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri síðustu daga. Kalt hefur verið í veðri, hægur vindur, götur þurrar og því má búast við að svifryksmengun fari yfir heilsuverndarmörk næstu daga. Upp úr helginni á að hlýna aftur í veðri með rigningu. Í umræðunni um aukna svifryksmengun hefur verið bent á ýmsa sökudólga sem gætu verið valdar af þessari mengun. Í því sambandi er bent á stóraukna umferð á höfuðborgarsvæðinu og því samfara fari meiri útblástur út í loftið og slit á malbiki eykst.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, sagði í útvarpsviðtali í Býtinu á Bylgjunni í morgun að honum finnist of einfalt að ætla að skella skuldinni á bílaflota borgarbúa, og eðlilegra væri að skoða að hvaða marki t.s ástand vega og lítil þrif stuðla að meiri svifryksmengun. Runólfur nefnir ennfremur að umferð þungra vöruflutningabíla hafi aukist mikið í kjölfar aukinna byggingaframkvæmda. Þetta kunni að eiga stóra sök á vandanum.

,,Auðvitað er það krafa á sveitarfélögin að þau séu dugleg að hreinsa göturnar. Við höfum séð síðustu ár alls ekki nógu vel staðið að þeim málum. Allir malarflutningar tengdum stórframkvæmdum eru einnig mengunarvaldar. Nýir bílar eru að gefa sáralítið frá sér í þessari mengun og rafbílar eru heldur ekki hluti af þessu vandamáli. Allir bílar geta aftur á móti þyrlað upp staðryki sem myndast stundum hér á höfuðborgarsvæðinu. Malarflutningar og opnir grunnar eru út um allt. Ekkert er gert til að hindra að möl og sandur þyrlist upp frá þessum svæðum til að koma í veg fyrir svifryksmengun. Það þarf ennfremur að stýra umferðinni með skynsamlegri og skipulögðum hætti en gert er,“ sagði Runólfur á Bylgjunni í morgun. Viðtalið við Runólf í heild sinni má nálgast hér.

Í umræðunni um þessi mál í fyrra kom fram að ákveðin fyrirtæki hér á landi buðu bíleigendum upp á að endurforrita vélartölvur ökutækja og er sagt að það skili meira afli og minni eldsneytiseyðslu.Boðið var upp á þann valkost að taka mengunarvarnarbúnað bílaframleiðenda úr sambandi. Þarna er sérstaklega fjallað um EGR-ventla, sótagnasíur og AD-blue hreinsibúnað. Aftenging þessa búnaðar frá framleiðanda eykur losun heilsuspillandi mengandi efna og skaðlegra sótagna frá bílum. Inngrip í mengunarvarnarbúnað ökutækja er ólöglegt athæfi með öllu.

Þess má geta að Sveitarfélög og Vegagerðin fá frá og með næstu áramótum heimild til að takmarka eða jafnvel banna tímabundið bílaumferð vegna loftmengunar. Sú heimild fékkst með samþykkt nýrra umferðarlaga á Alþingi í sumar og taka þau gildi í byrjun næsta árs.

Nokkur sveitarfélög hafa þó lýst yfir að þau hafi ekki áhuga að fara í aðgerðir með þessum hætti. Í gær kom fram að Reykjavíkurborg hefði hins vegar áhuga að fara í þessa vegferð í samvinnu með öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.