Umferðartafir kosta sitt

Í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins á vegamálum er áætlað að 15.000 klukkustundum sé sóað í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu á degi hverjum, sem samsvarar um 25 klukkustundum á hvern íbúa á ársgrundvelli. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en í greiningu samtakanna kemur m.a. fram að um 40% lengri tíma taki að ferðast úr Grafarvogi til vinnu miðsvæðis í Reykjavík en fyrir sex árum. 

Í Morgunblaðinu er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, sem segir að samtökin séu ekki sannfærð um að þær vegaframkvæmdir sem nú eru til umræðu á höfuðborgarsvæðinu séu þær arðbærustu og vísar þar m.a. í hugmyndina um Miklubraut í stokk, sem talið er að mundi kosta 21 milljarð króna.

Hann kallar eftir forgangsröðun í meira mæli og segir að aukna áherslu þurfi að leggja á kostnaðar- og ábatagreiningar til að meta arðsemi fjárfestinga og að út frá því sé hægt að forgangsraða framkvæmdum.

Sigurður segir að þjóðhagslegur kostnaður samfara umferðatöfum vera töluverða en að sama skapi er mikill ávinningur af framkvæmdum. Hann nefnir þar ljósastýringu og göngubrýr yfir fjölfarnar götur. Í stað gönguljósa megi setja brýr sem greiða fyrir umferð gangandi vegfaranda og bíla.

Vegfarendur sem ferðast i og úr vinnu á degi hverjum á höfuðborgarsvæðinu kannast við þær miklu umferðateppur sem myndast á leiðinni. Fólk sem býr í efri byggðum og nágrannabæjum borgarinnar lentir oft í því í morgunumferðinni og eins í síðdegisumferðinni að vera hátt í klukkutíma á leiðinni. Ekkert má út af bera svo verulega hægist á umferðinni og ferðatíminn lengist til muna. Eins og í þessu sem öðru sem snýr að samgöngum hefur lítið sem ekkert verið gert til að finna lausnir við þessum stóra og alvarlega vanda.

Nýlega komu fram hugmyndir frá stýrihópi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Vegagerðinni, og samgönguráðuneytinu sem snúa að betri stillingum og aukinni stýringu á umferðarljósum. Með það að markmiði að bæta flæði á yfir 50 gatnamótum þar sem umferðarteppur myndast.

Þessum umrædda hópi var falið fyrir tæpu ári síðan að meta heildarstætt þróun samgöngumála. Það má öllum vera ljóst að á helstu álagspunktum er hægt að reka umferðarljósakerfið mun betur en gert er. Brýnt er að hefja slíkar aðgerðir með það að markmiði að létta á umferðarflæðinu.

Samgöngumál hafa verið ofarlega á baugi í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna sem verða nk. laugardag. Það er deginum ljósara að fram undan er mikil vinna til að koma samgöngumálum almennt á höfuðborgarsvæðinu til betri vegar.