Umferðin á höfuðborgarsvæðinu reyndist mest á miðvikudögum í apríl

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í apríl jókst um fimm prósent frá sama mánuði í fyrra, heldur minni aukning en þá en eigi að síður hefur umferðin aldrei verið meiri á svæðinu í apríl mánuði. Nú er útlit fyrir að í ár aukist umferðin um heil sjö prósent sem er mikil aukning á einu ári samkvæmt tölum frá Vegagerðinni.


Umferðin í apríl jókst um 5% miðað við sama mánuð á síðasta ári.  Þetta er mun minni aukning en varð í mars, vegna þess í hvaða mánuði páskar voru í ár, en þó aðeins meira en búist var við.

Mest jókst umferð um mælisnið ofan Ártúnsbrekku og var það viðbúið þar sem hún er ein aðalumferðaræðin inn og út af höfuðborgarsvæðinu. Umferðin dróst saman um 4,4% á Hafnarfjarðavegi við Kópavogslæk. Umferðin hefur aldrei verið jafn mikil í aprílmánuði frá upphafi þessarar samantektar. 

Frá áramótum hefur umferðin aukist um 8,6%
Nú hefur umferðin aukist um 8,6% frá áramótum borið saman við sama tímabil á síðasta ári. Hér er um að ræða nýtt met þ.s. umferð hefur aldrei aukist jafn mikið innan höfuðborgarsvæðisins miðað við árstíma. 

Í nýliðnum apríl reyndist umferðin mest á miðvikudögum og eins og ávallt minnst á sunnudögum.  Sé horft á tímabilið frá áramótum til aprílloka þá eru umferðarmestu vikudagarnir föstudagar og sunnudagar umferðarminnstir.


Eftir því sem liðið hefur á árið hefur spáin fyrir árið 2017 stækkað í prósentum.  Nú má búast við því að umferð aukist um rúm 7% á þessu ári miðað við síðasta ár.  Gangi það eftir yrði það sama aukning og varð á síðasta ári.