Umferðin dróst saman á Suðurlandi

Umferðin á Hringveginum í apríl jókst um tæp tvö prósent í apríl sl. Athygli vekur að umferð um Suðurland dróst saman um fimm prósent en mikil aukning hefur verið á Suðurlandi mörg undanfarin ár. Búast má við að umferðin í ár aukist um 2,6 prósent. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Umferðin í apríl jókst um 1,9% miðað við sama mánuð á síðasta ári, yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi.  Þessi aukning er talsvert undir meðaltalsaukningu áranna 2005 – 2018, en hún er 3,7%.

Mesta aukningin varð um lykilteljara á Norðurlandi eða tæp 12% en tæplega 5% samdráttur varð um Suðurland.  Umræddur samdráttur um Suðurland eru nokkur tíðindi því tveggja stafa aukning hefur verið á því svæði, í apríl síðustu ár, og ekki mælst samdráttur síðan árið 2015.

Frá áramótum 2018 og 2019
Nú hefur umferðin, í umræddum mælisniðum, aukist um 4% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Þessi aukning er ekki svo mikil og vel undir aukningu undanfarinna ára og þarf að fara aftur til ársins 2015 til að finna minni aukningu miðað ivð árstíma.

Mest hefur umferð aukist um Vesturland eða um 7,2% en 0,5% samdráttur var í umferð um Hringveginn á Suðurlandi.

Uppsöfnuð umferð eftir vikudögum, frá áramótum,  er mest á föstudögum eins og venja er til. Mest hefur umferðin aukist á sunnudögum eða um 8% en minnst aukning er á þriðjudögum og laugardögum eða 0,9%  en þriðjudagar eru umferðarminnstu dagarnir það sem af er ári.

Horfur út árið 2019-
Miðað við reynslu undanfarin ár og umferð það sem af er ári gæti umferð um Hringveginn aukist um 2,6% miðað við síðasta ár. Þessi áætlaða aukning er heldur meiri en fram kemur í nýjastu hagsvaxtaspá Hagstofunnar sem gerir ráð fyrir 0,2% samdrætti nú í ár,  en er sambærileg við horfur í aukningu einkaneyslu.