Aukning í umferð á höfuðborgarsvæðinu

Umferðin yfir þrjú lykil mælisnið á höfuðborgarsvæðinu í maí mældist 2,6% meiri en í sama mánuði síðasta ári.  Umferð hefur aukist um 3,1%, frá áramótum mv sama tímabil á síðasta ári. Nú er útlit fyrir að umferðin á höfuðborgarsvæðinu geti aukist um 3%. Þetta kemur fram í samantekt Vegagerðarinnar.

Hófleg 2,6% aukning varð í umferð á höfuðborgarsvæðinu í nýliðnum maí mánuði miðað við sama mánuð á síðasta ári, ef marka má þrjú lykil mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu.Aldrei hefur mælst meiri umferð í maí mánuði, frá upphafi samantektar.

Mest jókst umferðin í mælisniði norðan við Smáralind (við Dalveg í Kópavogi) eða  5,0% en minnst jókst umferðin í mælisniði ofan Ártúnsbrekku eða 0,8%.

Athygli vekur að árið 2005 voru umrædd mælisnið um það bil jafn stór þar sem snið á Hafnarfjarðarvegi (við Kópavogslæk) var jafn stórt mælisniði á Reykjanesbraut við Smáralind (við Dalveg í Kópavogi) eða 34% hvort snið en nú stefnir mælisnið við Smáralind í að verða langstærst og gæti farið í 38% af heild en mælisnið við Kópavogslæk stefnir í að verða minnst með 28% af heildarumferð mælisniðanna þriggja.

Nú hefur umferðin aukist um 3,1%, frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Í maí mánuði á síðasta ári hafði umferðin aukist um 8,6% og þar áður um 7,2% .

Umferð eftir vikudögum 2017 og 2018

Mest var ekið á föstudögum, í maí, en minnst á sunnudögum. Umferðin jókst mest á miðviku- og fimmtudögum en samdráttur varð í umferð um helgar, lítill á laugardögum eða 0,3% en talsverður á sunnudögum eða 6,3%.

Frá upphafi árs hefur stefnt í mun minni vöxt í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu mv undanfarin ár og nú lítur út fyrir að aukningin verði í kringum 3%.