Umferðin eykst á Hringveginum

Umferðin á Hringvegi í maí jókst um 6,5 prósent sem er meiri aukning en á sama tíma í fyrra. Eigi að síður dróst umferðin á Austurlandi saman í maí. Aukningin í umferðinni fyrstu fimm mánuði ársins er töluverð en eigi að síður minnsta aukningin síðan árið 2015. Reikna má með að heildaraukning á árinu gæti orðið um tvö prósent á Hringvegi. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Umferðin yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi jókst talsvert í maí eða um 6,5% milli mánaða 2018 og 2019. Þetta er heldur meiri aukning en varð á milli sömu mánaða á síðasta ári en þá jókst umferðin um 3,8% miðað við árið áður.

Mest jókst umferðin um mælisnið á Vesturlandi eða 10,4% en 7,2% samdráttur varð um mælisnið á Austurlandi.  Þó að heildaraukning sé mikil þarf að leita aftur til ársins 2013 til að finna samdrátt í einhverju landssvæði á þessum tíma árs.

Af einstaka mælisniðum þá jókst umferðin mest yfir mælisnið undir Hafnarfjalli eða um 12,7% en 16,7% samdráttur mældist yfir snið á Mývatnsöræfum.

Þegar tímabilið frá áramótum, eða frá janúar til maí, er skoðað og borið saman við sama tímabil á síðasta ári kemur í ljós að heildaraukning umferðar á þessu tímabili er 4,6%.  Þetta er nokkur aukning en engu að síður sú minnsta, fyrir umrætt tímabil, frá árinu 2015.

Frá ármótum hefur umferðin aukist mest á Vesturlandi eða um 8,1% en á sama tíma mælist 1,6% samdráttur um Austurland. Það sem af er ári hefur umferð aukist í öllum vikudögum en hlutfallslega mest á sunnudögum eða um 10,3% en minnst hefur umferð aukist á föstudögum eða um 2,3%. Mest hefur verið ekið á föstudögum en minnst er ekið á þriðjudögum.

Þegar fimm fyrstu mánuðir ársins eru liðnir benda líkur til þess að umferðin í ár gæti aukist um 2% á Hringvegi.