Umferðin í apríl aldrei verið meiri á Hringveginum

Umferðin um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringveginum jókst um 12 prósent í apríl miðað við sama mánuð í fyrr.

Þótt þetta sé minni aukning en í sama mánuði í fyrra er þetta gríðarlega mikil aukning og hefur umferðin í apríl aldrei verið meiri á Hringveginum í apríl en reikna má með að 2,2 milljónir ökutækja hafi ekið yfir teljarana í mánuðinum.

 Það eru 73 þúsund bílar á dag að jafnaði. Þetta er það sem kemur m.a. fram í tölum frá Vegagerðinni.

Ef rýnt er nánar í tölurnar kemur fram að umferðin jókst um 12% milli apríl mánaða 2016 og 2017.  Þetta er aðeins minni aukning en varð á síðasta ári í sama mánuði, milli áranna 2015 og 2016, en þá jókst umferðin um 15% í apríl.

Umferðin hefur aldrei verið meiri um lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi í apríl eða rétt rúmlega 73 þús. ökutæki á sólarhring að jafnaði. Þessi bílafjöldi samsvarar því að um 2,2 milljónum ökutækja hafi verið ekið yfir áður nefnd teljarasnið í apríl.

Mest jókst umferðin um Austurland eða um rétt rúmlega 52%, sem er auðvitað fádæma mikil aukning, en horfa verður til þess að umferðin yfir mælisnið á Austurlandi er hlutfallslega langminnst. Minnst jókst umferðin um og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um rúmlega 5%.

Umferðin hefur aukist um 13,5% frá áramótum

Nú hefur umferðin aukist um 13,5% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þessi aukning er sú önnur mesta miðað við árstíma en aðeins á síðasta ári hafði umferðin aukist meira miðað við árstíma eða um 15,9%.

Mest hefur umferðin aukist um Austurland, frá áramótum, eða um rúmlega 36% en minnst um höfuðborgarsvæðið eða um tæp 11%.

Frá áramótum hefur umferðin verið mest á föstudögum en minnst á mánudögum. Mest hefur umferðin aukist á þriðjudögum eða um tæplega 19% en minnst á mánudögum eða um rúmlega 9%.

Horfur út árið 2017
Venja hefur verið sú að birta ekki spá fyrir 16 lykilteljara á Hringvegi fyrr en að loknum apríl mánuði.  Spáin út árið fyrir Hringveginn er því sú núna að umferðin geti aukist um 9,5% miðað við síðasta ár ef umferðin hegðar sér líkt og spálíkan umferðardeildar gerir ráð fyrir. 

En eins og oft hefur verið sagt þá skera sumarmánuðir að mestu úr um það hver niðurstaðan verður á endanum.