Umferðin um verslunarmannahelgina

Umferðin um liðna verslunarmannahelgi fór um flest vel fram. FÍB var með aðstoðarbíla á ferðinnií öllum landshlutum og er það samdóma álit aðstoðarbílstjóranna að ökumenn á vegum úti hefðu,með örfáum undantekningum, verið tilitssamir og löghlíðnir. Það er einnig mat þeirra að um liðna helgi hafi umtalsvert færri verið á ferðinni samanborið við síðustu ár. Tölur Vegagerðarinnar staðfesta þetta mat. Í frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar segir að frá föstudegi til og með mánudags
reyndist umferðin um verslunarmannahelgina vera rúmlega 12% minni en um sömu helgi árið 2010, á 6 völdum talningastöðum á Hringvegi út frá Höfuðborgarsvæðinu.

Aðstoðarbíll FÍB kom að harðri aftanákeyrslu á Holtavörðuheiði á mánudagskvöldinu og aðstoðaði við umferðarstjórnun og skipulag. Á vettvangi nutu tjónþolar góðrar aðstoðar vegfarenda m.a. læknis sem af fagmennsku kannaði eymsli ökumanna og farþega. Fulltrúi FÍB á slysstað segir að viðbrögð þeirra sem aðstoðuðu, viðbragðsaðila og vegfarenda almennt hafi verið til fyrirmyndar.

Töluverður erill var hjá hjálparvakt FÍB um helgina og margir hringdu til að óska eftir aðstoð og fá upplýsingar. FÍB þakkar samstarfsaðilum um land allt góða og fórnfúsa aðstoð við vegfarendur. Um helgina þurftir félagið einnig að leita til bænda á Brekku í Mjófirði fyrir austan sem brugðust við af höfðingskap og veittu góða aðstoð.

FÍB þakkar IH/Bílalandi fyrir lán á Subaru bifreiðum í vegaþjónustu og Speli rekstraraðila Hvalfjarðarganga sem í ár líkt og frá opnun ganganna heimilaði aðstoðarbílum FÍB gjaldfrjálsan akstur um göngin yfir verslunarmannahelgina.

hr  
Henrik Knudsen þjónustustjóri FíB aðstoðar