Umferðin frá áramótum á Hringvegi hefur aukist um nærri 14 prósent

Umferðin á Hringvegi í nýliðnum apríl mánuði jókst um 37,2 prósent miðað við sama mánuð fyrir ári. Frá áramótum hefur umferðin aukist um 13,6 prósent frá því í fyrra en dregist saman um tæp sjö prósent frá því sem hún var árið 2019 að því fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.

Umferðin, yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, jókst um 37,2% í apríl miðað við sama mánuð á síðasta ári.  Þetta er eðlileg aukning í ljósi ástandsins vegna Covid-faraldursins á sama tíma í fyrra og nú. Mest jókst umferðin um Norðurland eða um heil 74,5% en minnst um höfuðborgarsvæðið eða um 26,1%.

Aukning varð á öllum talningastöðum en mesta við Gljúfurá, sunnan Blönduós, eða um 100,4% og minnst jókst umferðin við Úlfarsfell eða um 22,0%. Nú hefur umferðin aukist um 13,6% frá áramótum og þætti það mjög mikið ef síðasta ár hefði verið venjulegt, en þrátt fyrir þessa miklu aukningu er umferðin á Hringveginum tæplega 6% undir því sem hún var, árið 2019.

Umferðin eftir vikudögum
Umferð hefur aukist í öllum vikudögum frá áramótum. Mest hefur umferð aukist á sunnudögum eða um tæp 27% en athygli vekur að umferð hefur ,,aðeins“ aukist um tæp 7% á miðvikudögum. Sé umferðin hins vegar borin saman við árið 2019 hefur hún dregist saman í öllum vikudögum, utan þriðjudaga,  mest á laugardögum eða um tæp 10% en 0,4% aukning hefur verið á þriðjudögum.