Umræða um hámarkshraða á þýsku hraðbrautunum

Töluverðar umræður hafa verið um nokkra hríð í Þýskalandi um hámarkshraða á hinum margfrægu þýsku hraðbrautum. Engin hámarkshraði hefur verið fram að þessu á brautunum en markmiðið með lækkum hraða er m.a. að draga úr kolefnismengun. Nefnd, sem þýsk stjórnvöld settu á laggirnar til að koma með tillögur í þessum efnum, leggur til að tekinn verði upp hámarkshraði við misjafna hrifningu meðal þýsks almennings.

  Bíllinn hefur alla tíð verið í hávegum í Þýskalandi og finnst mörgum að þeim vegið með að fá ekki að ráða hraða sínum á  hraðbrautunum eins og venjan hefur verið. Ein af tillögum nefndarinnar mælir um að setja 130 km hámarkshraða á brautunum. Frjálsræði hvað hámarkshraða áhrærir hefur ríkt alla tíð í Þýskalandi en það er eina Evrópulandið þar sem ökumenn mega, víðast hvar, aka eins hratt og þeir vilja.

  Þessu máli er langt frá því lokið enda sýnist sitt hverjum í þessu efnum. Meira að segja hefur samgöngumálaráðherra Þýskalands stigið fram og lýst yfir  andstöðu sinni á þessum tillögum. Hann vill engan hámarkshraða og er þar í hópi meirihluta almennings hvað þetta snertir. Umhverfissinnar eru hins vegar á öðru máli og vilja lækka hraða. 

  Umrædd samgöngunefnd hefur fleiri mál til umfjöllunar en hámarkshraða. Svo getur farið að settar verði auknar álögur á díselbíla og rafmagns- og tengiltvinnbíla. Áætlað er að nefndin ljúki störfum á vormánuðum og munu þá tillögurnar liggja endanlega fyrir.