Umsýsla óskoðaðra bíla á einn stað

 http://www.fib.is/myndir/Ur%20umfer%F0.jpg

Sýslumaðurinn á Bolungarvík hefur með bréfi sem sent var snemma á síðasta ári boðið ráðuneytum dómsmála og samgöngungumála að embættið taki framvegis að sér að kalla óskoðaða bíla á Íslandi inn til skoðunar. Frá þessu er greint á Samgönguvefnum. Slóðin þangað er www.samgongur.is.

Í lok nýliðins árs höfðu alls 24 þúsund skráð ökutæki ekki verið færð til skoðunar eins og skylt er samkvæmt lögum og gera má ráð fyrir því að tryggingariðgjöld af einhverjum hluta þessara ökutækja séu ógreidd og því sé talsverður hluti ótryggðra bíla í umferð. Lendi ótryggð ökutæki í slysum eða óhöppum geta ökumenn þeirra og umráðamenn hæglega átt yfir höfðum sér gríðarlegar endurkröfur vegna meiðsla og eignatjóns.

Árið 2004 voru sektir við því að vanrækja skoðunarskyldu ökutækja afnumdar. Lögregluembættin fá hins vegar reglulega í hendur lista frá Umferðarstofu yfir óskoðuð ökutæki. Í framhaldinu eru lögreglumenn gerðir út af örkinni að finna óskoðuðu bílana og gefa umráðamönnum þeirra viðvörun um að færa tækið til skoðunar innan tiltekins frests. Hunsi þeir það eru númerin fjarlægð ef til ökutækisins næst einhversstaðar.

Í bréfi sýslumannsins í Bolungarvík til ráðuneytanna er boðist til þess að halda utanum þetta þannig að embættið fengi þá í hendur lista Umferðarstofu yfir óskoðuð ökutæki allsstaðar á landinu. Hugmyndin er sú að í framhaldinu verði sent bréf til eigenda/umráðamanna ökutækjanna og þeim gefinn frestur til að mæta með farartækið í skoðun. Verði það ekki gert bætist sjálfvirkt við aukagjald sem hækkar jafnt og þétt eftir því sem menn hundsa skoðunarboðið lengur. Eins og nú háttar hefur það engar sektir eða álögur í för með sér að láta það eiga sig að mæta í skoðun með ökutæki.

Frá og með síðustu áramótum færðist lögreglan í Bolungarvík frá sýsluembættinu á staðnum til sýslumannsins á Ísafirði og bendir sýslumaður á í bréfi sínu til ráðuneytanna að þar hafi skapast tækifæri til að fá embættinu ný verkefni.