Undirakstursvörn samkvæmt Evrópureglum dugar ekki
Hér á landi hafa orðið fjöldamörg alvarleg slys við aftanákeyrslur fólksbíla við vörubíla og sömu sögu er að segja um alla Evrópu. Vegna þess hve alvarleg þessi slys oft verða tók Evrópusambandið sig til og setti nýjar reglur árið 2005 um undirakstursvörn fyrir vörubíla sem koma átti í veg fyrir að fólksbílar færu undir palla vörubíla við aftanákeyrslu. Árekstursprófun ADAC sýnir að nýja undirakstursvörnin dugar hvergi tll að forða því að fólksbílar fari undir vörubílspalla. „Prófunin sýnir að ökumaður og farþegi í minni fólksbílum eru í stórhættu með að slasast alvarlega eða missa lífið,“ segir Leif Nielsen tækniritstjóri Motor, félagsrits FDM í Danmörku, en hann var viðstaddur áreksturspróf ADAC.
Sjálft prófið fór þannig fram að tvær árekstrarbrúður voru í framsætum fólksbíls sem látinn var aka á 56 km hraða aftan á vörubíl sem búinn var undirakstursvörn. Myndir sem teknar voru í prófuninni sýna að undirakstursvörnin sópast burt við áreksturinn og fólksbíllinn rennur undir vörubílspallinn og yfirbygging hans og „fólkið“ í framsætunum skerst í sundur.
„Tilraunin sýnir greinilega að þær kröfur sem Evrópusambandið hefur gert duga hvergi til að hindra alvarleg meiðsli við aftanákeyrslu á vörubíla. Evrópusambandið verður að taka málið upp aftur og setja nýjar reglur sem duga til að forða alvarlegum slysu af þessu tagi,“ segir Leif Nielsen.
Í ljós kom í þessum tilraunum ADAC að ef undirakstursvörnin er bæði styrkt og einnig lækkuð úr 55 sm frá jörð, eins og reglur Evrópusambandsins mæla fyrir um, niður í 45 sm sýndi það sig að hún gegndi ætluðu hlutverki sínu mun betur en áður.