Undirstofnun alþingis neitar verkbeiðni þingsins

Ríkisendurskoðun hefur neitað beiðni Alþingis um að gera úttekt á fjárhagslegum forsendum og kostnaðaráætlunum vegna fyrirhugaðra Vaðlaheiðarganga. Sveinn Arason ríkisendurskoðandi gefur þá skýringu á neituninni að úttektin rúmist ekki innan ramma laga um það hvað stofnunni beri að fást við. Þá sé hann í ofanálag sjálfur mægður Kristjáni L. Möller alþingismanni og fyrrverandi samgönguráðherra og stjórnarmanni í Vaðlaheiðargöngum hf.

Þetta er í fyrsta sinn sem ríkisendurskoðun neitar verkbeiðni frá Alþingi. Sveinn Arason skýrir ekki út í hverju verkbeiðni forseta alþingis um úttektina fari á skjön við lög um hlutverk ríkisendurskoðunar en segir í frétt Ríkisútvarpsins að …„það sem hafi legið bak við beiðnina um Vaðlaheiðargöng hafi verið þannig útfært að augljóst væri að Ríkisendurskoðun gæti ekki framkvæmt úttektina.“.   

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir formaður umhverfis- og samgöngunefndar alþingis furðar sig á neituninni. Umdeilt arðsemismat liggi fyrir og nauðsyn sé á nýju óháðu mati á arðsemi og sjálfbærni þessarar dýru framkvæmdar sem ríkissjóði sé ætlað að ábyrgjast.

„Þess vegna vildum við leita til þessarar undirstofnunar Alþingis sem Ríkisendurskoðun er, til þess að fara faglega og óháð yfir málið áður en þessi heimild til þessarar gríðarlega mikla fjármagns úr sjóði ríkissjóðs væri gefin,“ segir Guðfríður Lilja við Ríkisútvarpið. Hér má heyra viðtal RÚV við Guðfríði Lilju Grétarsdóttur um málið.