Ungir menn á negldum vetrardekkjum kallaðir „kerlingar“

Mjög umdeild auglýsingaherferð í Jönköbing í Svíþjóð sem kostuð er af skattfé stendur nú yfir. Henni er beint gegn notkun negldra vetrarhjólbarða. Í henni er fólk sem ekur á negldum dekkjum nefnt ýmsum nöfnum. Ungir menn eru kallaðir „kerlingar,“ ungar stúlkur sagðar lífshættulegar og miðaldra konur sagðar vera heilsufarsógn.

http://www.fib.is/myndir/Heilsuspillir.jpg
Konan tv. sögð heilsuspillandi og unga stúlkan til
hægri lífshættuleg.
http://www.fib.is/myndir/Kerling.jpg
Eldri maðurinn tv. sem væntanlega ekur á ónegldum
dekkjum er sagður virkur umhverfisverndari. Strákur-
inn á nagladekkjunum er hins vegar „kerling.“

Í Jönköping hefur mælst talsvert af óhollum örögnum í loftinu á og í grennd við nokkrar helstu götur og samgönguæðar borgarinnar. Heilbrigðiseftirlit borgarinnar hefur sett af stað auglýsingaherferðina í því skyni að fá fólk til að hætta að nota neglda vetrarhjólbarða og fá sér frekar óneglda. Ástæðan er sú að naglarnir eru taldir rífa upp slitlagið á götunum og dreifa því sem lítt hollu ryki út í andrúmsloftið.

Hluti auglýsingaherferðarinnar eru fjórar gerðir plakata sem hengd hafa verið upp hingað og þangað um borgina. Eitt sýnir ungan mann og orðið kärring, eða kerling prentað stórum stöfum undir myndinni. Annað sýnir rúmlega miðaldra konu og undir stendur stórum stöfum að hún sé heilsufarsógnun. Þetta aldursval er sagt byggt á rannsókn heilbrigðiseftirlitsins sem leitt hafi í ljós að það séu einna helst ungir menn og miðaldra konur sem velji nagladekkin fremur en þau ónegldu.

Anna Mårtensson sem situr í borgarstjórn Jönköping og er jafnframt formaður jafnréttisnefndar borgarinnar er ósátt við auglýsingarnar. Hún segir í samtali við tímaritið Vi Bilägare að það sé móðgandi að nota orð eins og „kerling“ sem viðurnefni og til þess fallið að ýta undir sektarkennd hjá konum. Hafi ætlunin verið að beita einhverskonar hálfkærings mótsögnum hefði þá ekki verið eðlilegt að prenta t.d. orðið strákskratti undir myndina af ungu stúlkunni? spyr borgarfulltrúinn.