Ungir ökumenn

Alkunna er að margt ungt fólk, sérstaklega ungir karlmenn, er haldið þeirri meinloku að fátt geti komið fyrir þá. Þeir nánast eigi sér eilíft líf. Óþarfi sé því að tefja sig á smámunum eins og því að spenna bílbeltin og sinna „óþarfa“ í akstri eins og þeim að gefa stefnuljós.. Engum öðrum komi nefnilega við hvert stefnt sé.

En sem betur fer rjátlast þessi hugsanagangur af flestum í áranna rás, en margítrekaðar rannsóknir á þessu staðfesta að fjöldi ungra ökumanna gengur með þessa grillu og spennir ekki beltin. Það sé alger óþarfi.

Sænsk umferðaröryggissamtök sem heita NTF könnuðu nýlega beltanotkun í þéttbýli. Í ljós kom að almennt eru Svíar löghlýðnir og 93 prósent þeirra spenna beltin áður en þeir aka af stað. Fimmti hver ökumaður á aldrinum 18-25 ára sleppir því hins vegar og verstir eru ungu karlmennirnir.

Gera má ráð fyrir því að ástandið sé svipað hér á landi eins og í Svíþjóð. Það er því full ástæða til að hætta ekki að minna á gagnsemi öryggisbeltanna og hversu illa getur farið ef óhapp verður og beltið eða beltin eru óspennt. Vissulega er það svo að bílarnir hafa stöðugt batnað undanfarinn áratug. Þeir hafa orðið árekstrarþolnari og vernda fólkið í bílnum miklu betur en áður ef árekstur eða útafakstur á sér stað.

Gagnsemi öryggisbeltanna kom mjög tölfræðilega skýrt í ljós þegar notkun þeirra var lögleidd því þá fækkaði dauðaslysum og alvarlegum meiðslum umtalsvert. Þeim hefur svo haldið áfram að fækka í ríkjum V. Evrópu eftir því sem bílarnir og annar öryggisbúnaður í þeim hefur verið að batna. En þótt dauðaslysum á þeim sem ekki spenntu beltin hafi líka farið fækkandi þá er það engu að síður hryggileg staðreynd að 34 prósent þeirra sem deyja í umferðarslysum í Evrópu er ungt fólk, 25 ára og yngra og áberandi stór hluti þeirra látnu voru með óspennt öryggisbeltið.