Ungt fólk vill taka þátt í stefnumótun um samgöngumál

Málþing sem bar yfirskriftina Börn og samgöngur var haldið í þessari viku í Garðabæ. Það var samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sem stóð að málþinginu í samvinnu við Samgöngustofu, Vegagerðina og Samband íslenskra sveitarfélaga. Á málþinginu tóku bæði ungir sem aldnir til máls og ræddu stöðu barna í samgöngum í víðu samhengi. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flutti ávarp á þinginu.

Fundurinn var öllum opinn og var honum streymt í beinni útsendingu og gafst áhorfendum, hvar sem þeir voru staddir, færi á að senda inn ábendingar og spurningar sem ræddar voru í pallborði í kjölfar fyrirlestra.

Í tengslum við ráðstefnu Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Slysavarnir 2019, var haldin vinnusmiðja undir stjórn Manpreet Darroch fyrir umsjónarmenn og félaga í unglingadeildum Landsbjargar. Þeir Atli Þór Jónsson og Fannar Freyr Atlason, 15 ára félagar í unglingadeildinni Árnýju, sögðu frá þátttöku sinni í vinnusmiðjunni sem fjallaði um slysavarnir og umferðarslys, sem væru helsti dauðaorsök ungs fólk á heimsvísu.

Þeir sögðu frá mikilvægi þess að ungt fólk væri meðvitað og tæki þátt í því að bregðast við og finna lausnir. YOURS (Youth for Road Safety) hefur haldið vinnusmiðjur um alla heim, staðið fyrir herferðum og hefur gríðarlega miklu reynslu af því að leiða vinnu ungs fólks í umferðaröryggismálum. Landsbjörg leggur upp úr því að fulltrúar þeirra vinni áfram með jafningjafræðslu í heimabyggð. Fulltrúar Íslands stefna á að taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um umferðaröryggi sem haldin verður í Stokkhólmi 19.-20. febrúar 2020.

Á málþinginu voru áhugaverð erindi flutt. Erna Bára Hreinsdóttir, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, flutti erindið „Komiði með hætturnar!“ sem fjallaði um skipulag, þjóðvegi og börn. Sigrún Birna Sigurðardóttir, samgöngu- og umferðarsálfræðingur, fjallaði um hagnýtingu sálfræðilegrar þekkingar til að breyta ferðavenjum og Berglind Hallgrímsdóttir og Höskuldur Kröyer, samgönguverkfræðingar hjá Eflu og Trafkon fjölluðu um öryggi barna í Reykjavík.