Uppáhaldsbílar Jeremy Clarkson

Jeremy Clarkson hinn einstaki bílaþáttarstjórnandi TopGear á BBC sjónvarpsstöðinni hefur tekið saman þá 12 bíla sem hann hefur mestar mætur á þessa stundina. Clarkson og félagar hans aka reglulega mestu og bestu tryllitækjum og lúxusbílum samtímans Það er því forvitnilegt að sjá hvaða bíla slíkur maður sem Clarkson hefur í mestum metum og hvers vegna

Volvo XC90

- Pláss fyrir sjö manns, 14 fótleggi og tvo hunda. Volvo XC90 er afar rúmgóður án þess þó að líkjast strætisvagni í akstri, segir Clarkson um Volvo XC90.

Range Rover TDV8 Vogue SE

- Vona að ég sé ekki of hátíðlegur þegar ég segi að það láti nærri að ég klökkni af stolti yfir því að mannkynið hafi getað byggt svona frábært, unaðslegt og fagurt ökutæki.

Alfa Romeo MiTo

- Auðvitað er ég stórhrifinn af þessum bíl en það sem ég er þó hrifnastur af við hann er það að þegar fólk spyr mig í samkvæmum á hvernig bíl ég sé, þá geti ég svarað sannleikanum samkvæmt, að ég sé á Alfa.

Jaguar XKR convertible

- Ekki fullkominn bíll. Aðalljósarofinn er á vitlausum stað, aftursætið er heimskulega hannað. En þegar ég skoða aðra bíla í sama flokki, bíla eins og hinn ömurlega ljóta Maserati Coupé, hinn alltof flókna M6 og hinn ofurdýra Aston V8, þá er Jaguarinn sá eini semtil greina kemur hjá mér..

BMW Z4 sDrive35i

- Besti sportbíllinn af millistærð. Vil hann miklu frekar en Boxster og Mercedes SLK.

Jaguar XF 3.0 Diesel S Portfolio

- Afskaplega fallegur bíll sem auk þess að vera fagur er bæði nytsamlegur og rúmgóður.

Argo Avenger 700 8x8

Frábært torfærutæki að mati Jeremy Clarkson sem sjálfur hefur fengið sér eintak til að hafa í sumarbústaðnum sínum á bresku eynni Isle of Man.

Mazda MX-5 2.0i Sport Tech

- Langi þig í sportbíl er þetta sá rétti. Í engum öðrum sportbíl færðu jafn mikið verðmæti fyrir peningana og enginn er jafn skemmtilegur í akstri og Mazdan.

Lamborghini Gallardo LP560-4 Spyder

- Eiginlega langar mig ekkert til að eiga Lamborghini Gallardo, en  ég vildi ekki lifa í heimi þar sem þessi bíll fyrirfinnst ekki.

Ferrari California

- Þessi bíll er eiginlega meir stafrænn en hliðrænn. Ótrúlega léttur og viðráðanlegur.

Audi TT RS Coupé

- Dásamleg sæti og bíllinn miklu liprari í akstri en maður gæti ímyndað sér. Fjórhjóladrifið veitir ótrúlega gott veggrip, hljómtækin eru einstök og farangursrýmið er risavaxið.

Skoda Octavia Scout 1.8 TSI

- Maður verður seint beinlínis ástfanginn af þessum bíl og maður er í stórhættu á að verða fórnarlamb hæðni og eineltis snobbhænsna sem trúa því að enn skipti múrinn Berlín upp í austur og vestur. En ef maður grundvallar bílval sitt á skynsemi og rökhyggju þá finnst enginn skynsamlegri kostur.