Uppblásinn barnabílstóll

Barnabílstólar hafa alla tíð verið frekar klossaðir og fyrirferðarmiklir og af þeim sökum ekkert sérlega auðveldir í meðförum. Volvo í Svíþjóð hefur nú kynnt til sögu uppblásinn barnabílstól sem er bæði er léttur og fyrirferðarlítill. Í honum er loftdæla sem blæs hann upp á innan við mínútu og tekur úr honum loftið og brýtur hann saman að notkun lokinni eins og sjá má á myndskeiðinu hér.

http://fib.is/myndir/Volvobarnastoll2.jpg

Uppblásni bílstóllinn er afturvísandi, sem talið er öruggast. Prófanir benda til að hann sé mjög öruggur. Mjög auðvelt er að festa hann í bílinn og losa. Samanbrotinn kemst hann fyrir í litlum bakpoka og er því auðvelt að flytja hann milli bíla og nota við allar mögulegar aðstæður sem kannski er meira en að segja það með marga þeirra bílstóla sem fyrirfinnast í dag og teljast öruggir.

Lawrence Abele hönnunarstjóri við hönnunar-og rannsóknastöð Volvo í Los Angeles er hönnuður nýja uppblásna stólsins. Hann segist hafa haft litlu börnin sín tvö sérstaklega í huga þegar hann vann að stólnum. Hann hafi alltaf leitast við að tryggja öryggi þeirra í bílnum sem best hann gat og það hafi oft verið mjög fyrirhafnarsamt og erfitt á löngum ferðalögum að vera með tvo fyrirferðarmikla barnastóla í farangrinum, koma þeim í gegn um flughafnir og festa síðan í hina og þessa bílaleigubíla. “Það er ekkert auðvelt að ferðast með lítil börn og allt sem þeim þarf að fylgja. Það er því gott að geta létt foreldrum litlu barnanna lífið og gera þeim ferðalögin auðveldari.”  Hann segir jafnframt að uppblásni stóllinn ætti að opna nýja möguleika, t.d. fyrir afa og ömmur þegar þau taka að sér að gæta litlu barnabarnanna og vantar góðan handhægan og öruggan búnað þegar þau taka barnið eða börnin með í bíltúr. Þá sé nýi stóllinn handhægur þegar tekinn er leigubíll, bílaleigubíll eða farið með strætó eða rútu.

Loftdælukerfi stólsins er áfast við stólinn. Það er mjög hljóðlátt en öflugt og blæs stólinn upp á 40 sekúndum og tæmir hann og brýtur hann saman á jafnlöngum tíma. Stóllinn vegur tæp 5 kíló sem er um helmingur þyngdar hefðbundins barnastóls. Stóllinn er með Bluetooth-fjarskiptabúnaði þannig að hægt er að virkja loftdælubúnaðinn með fjarstýringu, farsíma eða með símkerfi bílsins. Hann getur verið í stöðugu “blátannarsambandi” meðan á ferðinni stendur og meðal annars lagað loftþrýstinginn sjálfvirkt að þyngd barnsins og að aksturslagi ökumannsins. Efnið í stólnum er mjög sterkt og er samskonar og það efni sem notað er í slöngubáta. Það þolir mikinn þrýsting, högg og ákomur án þess að rifna og missa loftið út.

Uppblásni stóllinn er afturvísandi. Það er talið lang öruggast fyrir börn, sérstaklega þau sem ekki hafa náð fjögurra ára aldri. Það er vegna þess að hálsinn og hálsvöðvarnir hafa ekki náð sama þroska og hlutfallslega styrk og hjá fullorðnum. Ef framaná-árekstur verður styður stóllinn við höfuðið en í framvísandi stól kastast höfuð barnsins fram á við og afleiðingar þess geta orðið slæmar.