Uppbygging á hverfahleðlsum í Reykjanesbæ

Orka náttúrunnar og Reykjanesbær eru að hefja uppbyggingu á Hverfahleðslum líkt og gert hefur verið með góðum árangri í Reykjavík og Garðabæ síðustu ár. Um er að ræða u.þ.b fimmtán staðsetningar með yfir fimmtíu tengjum en fjöldinn liggur ekki endanlega fyrir og gætu staðsetningar eitthvað breyst.

Fyrstu Hverfahleðslurnar hafa nú þegar verið settar upp og eru þær við Vatnaveröld og við Ráðhúsið en strax í kjölfarið munu verða settar upp hleðslustöðvar við Keili og Stapaskóla. Undirbúningur á uppsetningum á fleiri stöðum er í fullum gangi og þegar snjó tekur að leysa þá munu þær rísa hver á fætur annarri.

Þess má geta að settar voru upp hverfahleðslur með fjórum tengjum við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í desember og ef marka má notkunina eru bíleigendur að nýta sér þær í miklum mæli. Fjölbrautaskóli Suðurnesja ætlar að bæta um betur og er stefnan að setja upp hraðhleðslustöð þegar færi gefst en þá verður hægt að hlaða bílinn á mjög skömmum tíma.

Unnið hefur verið að uppbyggingu hleðsluinnviða í Reykjanesbæ lengi með það markmið að bæta þjónustuna enn betur rafbílaeigendur á Suðurnesjum.