Upplýsingafulltrúi Icelandair svarar umfjöllun FÍB blaðsins

The image “http://www.fib.is/myndir/FIB-forsida.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Í Morgunblaðinu í dag, 13. nóvember, er rætt við upplýsingafulltrúa Icelandair um nokkur af þeim atriðum sem fram koma í grein FÍB blaðsins um samráð félagsins og Iceland Express um hækkun skatta og fargjalda.

Upplýsingafulltrúinn segir að það sé rangt að Icelandair sé með hærri gjöld en aðrir. Ljóst er að upplýsingafulltrúinn á eftir að lesa FÍB blaðið, því þar kemur berlega fram að gjaldaliðurinn “skattar” er tvöfalt til þrefalt hærri hjá Icelandair en öðrum flugfélögum í Evrópu – en hins vegar nánast þeir sömu og hjá Iceland Express. Í FÍB blaðinu kemur t.d. fram að á meðan SAS innheimtir 3.730 kr. í skatta á flugleiðinni Reykjavík-Osló, þá tekur Icelandair 7.700 kr. á nákvæmlega sömu leið, milli sömu flugvalla.

Þá segir upplýsingafulltrúinn við Morgunblaðið að það sé ekki rétt að fargjöld Icelandair hafi hækkað. Þau hafi stöðugt farið lækkandi. Þetta kemur ekki heim og saman við þær staðreyndir sem fram koma í FÍB blaðinu. Þar er bent á að á árunum 2003 og 2004 hafi Icelandair boðið fargjöld á 16-19 þúsund krónur með sköttum, en nú sé hending ef þar finnast fargjöld undir 27 þúsund krónur með sköttum. Fargjöldin hafa því svo sannarlega hækkað. Í þessu sambandi er t.d. vert að minna á miklar auglýsingar Icelandair árin 2003 og 2004 á Netsmellum á 19.800 kr. með sköttum. Núna eru lægstu fargjöld Icelandair yfirleitt á svipuðu róli, þ.e. 19.800 kr. og svo koma skattarnir til viðbótar – á bilinu 8-9 þúsund krónur. Þetta heitir nú varla að fargjöld fari stöðugt lækkandi.

Í viðtalinu við Morgunblaðið í dag verður upplýsingafulltrúa Icelandair tíðrætt um tilboðsverð á flugfargjöldum til að sýna að félagið bjóði víst hagstæð fargjöld. En fyrir hinn almenna flugfarþega, sem þarf að ferðast til ákveðinna staða á ákveðnum tíma, segja tilboðsverð ekki neitt. Það liggur í hlutarins eðli að flugfélögin bjóða tilboð á fargjöldum á þeim tíma sem fáir farþegar vilja ferðast og þar með hefur aðeins lítill hluti flugfarþega gagn að þeim. Meirihlutinn þarf að búa við “venjuleg” fargjöld. Eins og fram kemur í FÍB blaðinu hafa lægstu fargjöld Icelandair og Iceland Express hækkað samhliða um allt að 50% á síðustu tveimur til þremur árum.

Þá segir upplýsingafulltrúi Icelandair að engin eignatengsl séu á milli Icelandair og Iceland Express. Það er rétt hjá honum – eignatengslin eru ekki lengur fyrir hendi, en þau voru það allt þar til fyrir þremur vikum þegar FL Group seldi Icelandair frá sér. Það var á þeim tíma sem FL Group átti Icelandair sem flugfélögin tvö hækkuðu fargjöld sín með samstilltum hætti – en þar bundust eigendur flugfélaganna nánum böndum sem viðskiptafélagar. Um þetta má lesa meira í nýjasta tölublaði FÍB blaðsins.