Upplýsingasíða fyrir óvitana

Samkeppniseftirlitið hefur sett upp sérstaka upplýsingasíðu um samkeppnisreglur fyrir hagsmunasamtök atvinnugreina. Á vefsíðunni segir að tilgangur hennar sé að koma í veg fyrir að starf hagsmunasamtaka fyrirtækja skaði samkeppni.

Ærin ástæða er fyrir þessum leiðbeiningum Samkeppniseftirlitsins. Forsvarsmenn ýmissa hagsmunasamtaka hafa verið staðnir að því að tala upp ástæður fyrir verðhækkunum aðildarfyrirtækja eða gera lítið úr gagnrýni á óeðlilega gjaldtöku. Þetta er bannað í samkeppnislögum.

Á upplýsingasíðu Samkeppniseftirlitsins segir m.a.: „Hagsmunasamtök fyrirtækja þurfa að kunna á þessum reglum góð skil. Einnig er mikilvægt að aðildarfyrirtæki hagsmunasamtaka þekki reglurnar, bæði í sinni eigin þátttöku á vettvangi samtaka og til þess að sýna samtökum sínum aðhald.“

Með öðrum orðum, upplýsingasíða fyrir þá sem þykjast ekki vita.