Upprunalega Ladan hverfur

Árið 2012 verður síðasta framleiðsluár upprunalega Lada fólksbílsins rússneska. Upprunalega Ladan var lítill fimm manna fólksbíll – stallbakur með 1,2 lítra bensínvél. Lada 1200 hefur allt frá því að framleiðsla á Lada bílum hófst fyrir 42 árum, verið framleiddur mikið til óbreyttur. Það segir nokkra sögu um hversu vel heppnaður og ágætur þessi bíll í raun og veru var.

Upphaf Lödunnar og þeirra Lada bíla sem síðar komu var það að upp úr 1960 í miðju Kalda stríðinu vildi gamla Sovétstjórnin hleypa nýju blóði inn í staðnaða bílaframleiðslu þessa volduga heimsveldis sem Sovétríkin sannarlega voru. Um leið vildi Sovétstjórnin lappa upp á ímynd sína sem sæluríki hins vinnandi fólks þar sem allir þegnarnir ættu þess kost að eignast eigin bifreiða, ekkert síður en fólk í Vestrinu. Sovétstjórnin samdi við Fiat í Torino á Ítalíu um að reisa nýtískulega og fullkomna bílaverksmiðju austur á Volgubökkum og fá jafnframt aðgang að allri tækniþekkingu sem til þurfti til að framleiða góðan traustan og tæknilega vel gerðan fólksbíl handa hinum almenna Sovétborgara.

Og sá bíll sem Fiat lagði til þessa verkefnis var vissulega ekki eitthvert gamalt módel heldur hreinlega einn nýjasti Fiatinn sem var að slá í gegn í Evrópu sem Fiat 124 og var valinn bíll ársins í Evrópu árið 1967.  Þessi bíll var aðlagaður að rússneskum aðstæðum og styrktur á ýmsan máta og upphækkaður til að komast um vonda vegi og  þola fimbulkulda hins rússneska vetrar. Þessar breytingar komu kaupendum hér á Íslandi vissulega til góða. Hér reyndist Lada 1200 vel og betur en ýmsir miklu dýrari og „vandaðri“ bílar. Dæmi höfum við af einum Lada 1200 sem var í eigu sömu fjölskyldunnar í 30 ár og var ekið hátt í milljón kílómetra án annarra viðgerða en þeirra sem flokkast undir eðlilegt viðhald. En ekki var Lada 1200 mikið tryllitæki. 58 ha. vélin var 23 sekúndur að koma honum í hundraðið og hámarkshraðinn var í kring um 120 km á klst.

Eftir að nýju bílaverksmiðjunni hafði verið valinn staður  við Volgufljót var  byrjað að reisa hana árið 1966. Ekki aðeins var reist verksmiðja, heldur heill nýr 110 þúsund íbúa kaupstaður með öllu sem bæjarfélagi tilheyrir; skólum, heilbrigðisþjónustu, verslunum o.s.frv. Sjálf verksmiðjan var sú stærsta sinnar tegundir í heiminum undir einu þaki og samsetningarfæriböndin samtals 140 km löng. Þessi nýi verksmiðjubær fékk nafnið Togliatti eftir ítalska kommúnistaleiðtoganum Palmiro Togliatti. Fyrsta Ladan rann svo af færibandinu  árið 1970 en alls hafa síðan komið þaðan rúmlega 18 milljón Ladabílar.