USA í mál við Volkswagen

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur höfðað mál gegn Volkswagen og krefst allt að 90 milljarða dollara skaðabóta fyrir meint lagabrot, m.a. gegn umhverfisverndarlögum. Málið var dómtekið í Detroit síðdegis í gær um fjórum mánuðum eftir að dísil-pústsvindl VW gaus upp í fjölmiðlum. Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að sjaldnast ljúki málum af þessu tagi með dómi heldur náist venjulega samkomulag áður um skaðabætur sem séu aðeins brot þess sem upphaflega var krafist.  

En miðað við málsgögn og upphæð kröfu bandaríska ríkisins telja fjölmiðlar vestra það einsýnt að málið verði Volkswagen mjög dýrt á endanum og mun dýrara en menn héldu í byrjun. Verð á hlutabréfum í Volkswagen féll strax í morgun (5. jan.) í kjölfar dómtökunnar um allt að 6% og er meðalverðið nú um 22% lægra en það var áður en hneysklismálið komst í hámæli. Fari allt á versta veg fyrir Volkswagen telja svartsýnustu spámenn að bótaupphæðir fyrir lögbrotin geti numið allt að 37.500 dollurum að meðaltali á hvern einasta VW bíl í USA með innsettum hugbúnaði til að fegra útblástursmengunartölur. Bílarnir sem um er að ræða eru um 600 þúsund talsins í Bandaríkjunum.   

Í viðtali við þýska bílablaðið Automobilwoche segist talsmaður VW í  Wolfsburg fátt geta sagt um dómkröfurnar í Detroit. Menn séu að pæla í gegn um þær og vilji ekkert segja fyrr en að því loknu. Um mánuður er síðan Volkswagen kynnti drög að áætlun um tæknilega viðgerðarlausn á bílunum með svikahugbúnaðinum í bílunum. Samkvæmt henni er ætlunin að hefja innköllun bílanna í þessum mánuði. Lagfæringin sem á að duga í flestum tilfellum er sögð sú að að gera óvirkan svikahugbúnaðinn sem aftengir pústhreinsibúnaðinn. FÍB og Evrópsku systurfélögin hafa fylgst náið með málinu frá upphafi og eru tilbúin að aðstoða félagsmenn sína komi upp vafamál eða að ef eiginleikar bílanna breytast umtalsvert.