Útför Pontiac fór fram í kyrrþey

Um aldar langri sögu er nú lokið. Henni lauk á sunnudag 31. október þegar sölu á hinu fornfræga bílamerki Pontiac var formlega hætt hjá GM og GM umboðum í Bandaríkjunum. Raunar hætti framleiðsla á Pontiac bílum fyrir ári. Aðeins ein gerð Pontiac var þá enn í framleiðslu í Mexíkó, sérstaklega fyrir Kanadamarkað.

Saga Pontiac hófst hjá vagnasmiðjunni Pontiac Spring & Wagon Works Company árið 1906. Sjálft nafnið Pontiac var sótt til indíánahöfðingja sem stóð fyrir uppreisn gegn Bretum og vopnuðum átökum við þá á árunum 1763 til 1769. Fyrirtækið var sameinað Oakland Motor Car árið 1908 og GM keypti það svo ári síðar. Pontiac fékk stöðu innan GM sem sjálfstæður framleiðandi innan GM samsteypunnar árið 1926. Merkið gekk yfirleitt vel og átti nokkur blómaskeið um ævina og hið stærsta þeirra var upp úr 1959. Þá var árleg sala á Pontiac bílum oft á tíðum yfir milljón bíla markinu og þar með eitt söluhæsta merkið innan GM samsteypunnar. Meira að segja árið 2008 seldust 267.000 Pontiac bílar.