Útlit fyrir 11% aukningu umferðar á Hringveginum á þessu ári

Umferðin á Hringveginum í nýliðnum októbermánuði jókst um meira en 15 prósent frá sama mánuði í fyrra og aldrei áður hefur umferðin í október aukist jafnmikið. Umferðin um Suðurlandið jókst um ríflega 22 prósent. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Þá kemur einnig fram að nú er útlit fyrir að umferðin á Hringveginum í ár verði 11 prósentum meiri en í fyrra og yrði það þá næst mesta aukning frá því að þessi samantekt hófst árið 2005. Búast má við að góð tíð í október hafi eitthvað með þessa miklu aukningu að segja.

Met aukning varð í nýliðnum október borið saman við sama mánuð á síðasta ári eða aukning upp á 15,1%.  Aldrei áður hefur umferð aukist jafn mikið milli október mánaða frá því að þessi samantekt hófst.

Mikil aukning varð á öllum landssvæðum en mest jókst umferðin um Suðurland eða um 22,1% en minnst um Norður- og Austurland eða um 13,2%, af einstaka talningastöðum. Umferðin í október hefur að jafnaði aukist mest frá árinu 2005 eða um 4,3% á ári.  Þessi aukning nú er því 3,5 sinnum meiri en meðaltalsaukningin.

Frá árámótum hefur umferðin nú aukist um 11,1% og er það rétt undir stöðunni, eins og hún var fyrir ári síðan en þá hafði umferðin aukist um 12,9% miðað við árið þar á undan.

Mest hefur umferð aukist um Suðurland eða um 15,8%, það sem af er ári, en minnst um Vesturland eða um 8,9%.